Jair Bolsonaro, forseti Brasilíu, hefur enn ekki gefið frá sér yfirlýsingu um niðurstöðu forsetakosninganna í gær, þar sem hann tapaði endurkjöri með naumindum fyrir andstæðingi sínum, vinstrisinnaða fyrrum forsetanum Luiz Inácio Lula da Silva. Bolsonaro hefur hvorki viðurkennt ósigur né hefur hann tilkynnt að hann hyggist ekki viðurkenna kosningaúrslitin líkt og hann hafði gefið í skyn að hann myndi gera á undanförnum mánuðum.

Margir erlendir þjóðarleiðtogar hafa hins vegar verið fljótir að óska Lula til hamingju með sigurinn. Joe Biden Bandaríkjaforseti birti skilaboð með hamingjuóskum á vefsíðu Hvíta hússins og sagðist hlakka til að vinna með Lula í áframhaldandi samstarfi Bandaríkjanna og Brasilíu á næstu mánuðum og árum.

António Costa, forsætisráðherra Portúgals, fyrrum herraþjóðar Brasilíu, sagðist sömuleiðis hlakka til að starfa með Lula, ekki einungis í þágu Portúgals og Brasilíu heldur í þágu alþjóðlegra markmiða. Costa, sem er leiðtogi portúgalska Sósíalistaflokksins, hafði stutt Lula í kosningabaráttunni heima fyrir.

Vladímír Pútín, forseti Rússlands, birti einnig hamingjuóskir á heimasíðu Kremlar og sagði úrslit kosninganna vera til marks um „mikið pólitískt vald“ Lula. „Ég vænti þess að með sameiginlegu átaki okkar munum við tryggja frekari þróun á uppbyggilegu rússnesk-brasilísku samstarfi á hverjum vettvangi fyrir sig,“ skrifaði Pútín. Fyrir kosningarnar hafði Pútín lagt áherslu á að hann ætti í góðu sambandi bæði við Bolsonaro og Lula, en Pútín var þegar við völd í Rússlandi á fyrri forsetatíð Lula á árunum 2003 til 2010.

Ríkisútvarp Kína hafði eftir kínverska forsetanum Xi Jinping að hann óskaði Lula til hamingju og vonaðist til að geta styrkt samstarf ríkjanna tveggja eftir embættistöku hans.

Emmanuel Macron, forseti Frakklands, óskaði Lula til hamingju í færslu á Twitter-síðu sinni og sagðist vonast til þess að saman gætu þeir „endurnýjað vináttuna“ milli landanna tveggja.

Macron hafði átt í afar stirðu sambandi við Jair Bolsonaro. Forsetarnir tveir höfðu meðal annars farið í hár saman árið 2019 vegna gagnrýni Macrons á viðbrögð Bolsonaros við skógareldum í Amasónskóginum og Bolsonaro hafði í kjölfarið deilt færslu á samfélagsmiðlum með niðrandi athugasemdum um útlit eiginkonu Macrons. Við það tilefni sagði Macron að hegðun Bolsonaros væri „sorgleg fyrir Brasilíu“ og að brasilískar konur hlytu að skammast sín fyrir hann.

Í fyrra fundaði Macron með Lula í Élysée-höllinni í París. Bolsonaro gagnrýndi Macron fyrir fundinn og sagðist líta á hann sem ögrun.