Jair Bol­sonaro, forseti Brasilíu, sakar umhverfisverndarhópa um að hafa kveikt skógareldana í Amazon - í þeim tilgangi að niðurlægja ríkisstjórn sína. Ásakanirnar koma í kjölfar mikillar gagnrýni á ríkisstjórn forsetans vegna stefnuleysis hans í umhverfismálum, að því er fram kemur á vef Guar­dian.


Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá geisa nú gríðarlegir eldar í Amazon-regnskóginum, þeir flestu í sögunni. Svo mikill reykur barst frá eldunum að dagur breyttist í svartnætti í borginni Sao Paulo í Brasilíu á dögunum, og sjá eldarnir sáust úr geimnum.

Félagasamtök og umhverfisverndarhópar hafa undanfarna daga reynt að vekja athygli á brunanum og bent á að regnskógurinn sé heimkynni þriggja milljón tegunda plantna og dýra og gegni lykilhlutverki í vistkerfi jarðar.

Á vef Guardian segir að útbreiðslu eldanna megi rekja til efnahagsstefnu Bolsonaro, sem gefur bændum leyfi til að ryðja land til ræktunar. Meira en 72.000 eldar hafa kviknað á þessu ári í Brasilíu og sem er 84 prósent meira en á síðasta ári.

Bolsonaro frábiður sér allar ásakanir og beinir spjótum sínum að umhverfisverndarsinnum. „Vegna spurningarinnar um elda í Amazon skóginum, sem að mínu mati er upp­runninn frá um­hverfis­verndar­hópum, hver er til­gangurinn? Að færa vanda­mál til Brasilíu,“ sagði for­setinn í á­varpi á ráð­stefnu stál­fram­leið­enda í dag.

Um­hverfis­verndar­hópar hafa brugðist við um­mælunum, segja þau út úr öllu korti og vera leið for­setans til að dreifa at­hyglinni frá eigin van­hæfni, að því er segir í um­fjöllun breska miðilsins.