Geim­farar í Al­þjóð­legu geim­stöðinni bökuðu súkku­laði­bita­kökur í síðasta mánuði og er það í fyrsta skipti sem kökur eru bakaðar út í geimi. Alls voru bakaðar þrjár kökur og eru þær allar komnar til jarðar.

Það var ekki af eins­kærri löngun í smá­kökur sem geim­fararnir tóku sig til og skelltu í eina sort, heldur var bökunin hluti af rann­sókn á því hvernig hentugast er að elda um borð í geim­stöð, en það er liður í undir­búningi lengri geim­ferða.

Ef­laust spyrja margir sig hvernig baksturinn hafi heppnast en það veit enginn enn sem komið er, þar sem þær hafa ekki verið borðaðar enn.

„Kökurnar munu fljót­lega verða rann­sakaðar af mat­væla­fræðingum þar sem at­hugað verður hvernig til­raunin heppnaðist,“ hefur BBC eftir tals­manni Dou­ble Tree fyrir­tækisins, sem sá um að út­vega NASA köku­deigið.

Á jörðu niðri hefði það tekið um það bil tuttugu mínútur að baka smá­kökur af þessari gerð en það reyndist taka mun meiri tíma þegar komið var á spor­braut um jörðu eða alls 130 mínútur.

Kökurnar voru bakaðar í frum­gerð af ofni sem var sér­hannaður til notkunar í geim­stöðinni, en komið var með hann þangað í nóvember á síðasta ári.