Geimfarar í Alþjóðlegu geimstöðinni bökuðu súkkulaðibitakökur í síðasta mánuði og er það í fyrsta skipti sem kökur eru bakaðar út í geimi. Alls voru bakaðar þrjár kökur og eru þær allar komnar til jarðar.
Það var ekki af einskærri löngun í smákökur sem geimfararnir tóku sig til og skelltu í eina sort, heldur var bökunin hluti af rannsókn á því hvernig hentugast er að elda um borð í geimstöð, en það er liður í undirbúningi lengri geimferða.
Eflaust spyrja margir sig hvernig baksturinn hafi heppnast en það veit enginn enn sem komið er, þar sem þær hafa ekki verið borðaðar enn.
„Kökurnar munu fljótlega verða rannsakaðar af matvælafræðingum þar sem athugað verður hvernig tilraunin heppnaðist,“ hefur BBC eftir talsmanni Double Tree fyrirtækisins, sem sá um að útvega NASA kökudeigið.
Á jörðu niðri hefði það tekið um það bil tuttugu mínútur að baka smákökur af þessari gerð en það reyndist taka mun meiri tíma þegar komið var á sporbraut um jörðu eða alls 130 mínútur.
Kökurnar voru bakaðar í frumgerð af ofni sem var sérhannaður til notkunar í geimstöðinni, en komið var með hann þangað í nóvember á síðasta ári.
We made space cookies and milk for Santa this year. Happy holidays from the @Space_Station! pic.twitter.com/sZS4KdPmhj
— Christina H Koch (@Astro_Christina) December 26, 2019