Jóla­bóka­flóðið stendur nú í hæstu hæðum en þetta sér­ís­lenska bók­mennta­fyrir­bæri á sér langa sögu sem teygir sig aftur til efna­hags­kreppu eftir­stríðs­áranna og hefur staðið af sér tækni­breytingar og tísku­strauma í rúm 75 ár.

Í Bóka­tíðindum þessa árs er upp­runi jóla­bóka­flóðsins reifaður í inn­gangi eftir Heiðar Inga Svans­son, for­mann Fé­lags ís­lenskra bóka­út­gef­enda (FÍ­BÚT).

„Þá hefð að gefa bækur til jóla­gjafa má rekja til áranna eftir síðari heims­styrj­öld og eftir að hafa fengið sjálf­stæði okkar frá Dönum árið 1944. Fyrstu ár ný­fengins sjálf­stæðis voru því ekki auð­veld fyrir hið unga lýð­veldi sem stóð nú frammi fyrir afar flóknum og krefjandi að­stæðum. Þá dugði ekki að grípa til neinna vettlinga­taka þannig að efna­hags­á­standið færi ekki úr böndunum.“

Settir voru á víð­tækir kvótar og inn­flutnings­bönn á ýmsar er­lendar vörur, sem tak­markaði mjög úr­val á gjafa­vöru. Pappír var hins vegar utan þessara hafta og jókst því mjög prentun ís­lenskra bóka, sem urðu vin­sælar í jóla­pakkann.

Tafla/Fréttablaðið

Flóðið aldrei fjöl­breyttara

Heiðar Ingi segir jóla­bóka­flóðið 2021 fara mjög vel af stað miðað við fyrri ár, titlum hafi fjölgað og úr­valið sé fjöl­breytt sem aldrei fyrr.

„Út­gefnum bókum heldur á­fram að fjölga sam­kvæmt fjölda skráðra titla í Bóka­tíðindum ársins 2021 og úr­valið hefur sjaldan eða aldrei verið fjöl­breyttara. Um er að ræða um­tals­verða fjölgun frá því í fyrra en aldrei fyrr hafa jafn margar nýjar raf- og hljóð­bækur komið út. Út­gáfa nýrra ís­lenskra skáld­verka er líka í sögu­legu há­marki en einnig fjölgar út­gáfu ung­menna­bóka, þýddra skáld­verka og fræði­bóka.“

Sam­kvæmt tölum frá FÍ­BÚT er fjöldi skráðra titla í ár 985, sem er aukning upp á 122 bækur frá því í fyrra, saman­borið við 861 árið 2020. Þó skal hafa í huga að þetta er ekki tæmandi listi um heildar­út­gáfu allra bóka á árinu og er ekki gerður greinar­munur á frum- og endur­út­gáfum.

Margrét Jóna Guð­bergs­dóttir, vöru­stjóri ís­lenskra bóka hjá Pennanum Ey­munds­son, er sam­mála Heiðari Inga um að jóla­bóka­flóðið fari vel af stað.

„Við erum svona á svipuðu róli og í fyrra, nema það er minni sala í skáld­verkunum. Það var líka mjög sterk út­gáfa í fyrra. En árið 2020 var líka kannski svo­lítið skrýtið, fólk var mjög mikið heima og var kannski að panta eða kaupa bækur til að lesa sjálft,“ segir hún.

Co­vid mögu­lega kjör­að­stæður

Að sögn Margrétar Jónu gekk jóla­bóka­flóðið 2020 vonum framar, en at­hyglis­vert er að sam­komu­tak­markanir og heims­far­aldur höfðu síður en svo nei­kvæð á­hrif á bók­sölu.

„Jóla­bóka­flóðið í fyrra var mjög gott og mun betra heldur en árin þar á undan. Bók­salan var mjög góð. Það eru alls konar breytur í þessu, fólk var til dæmis ekki að fara til út­landa og var að kaupa jóla­gjafir hérna heima,“ segir hún.

Spurður hvort á­hrif Co­vid hafi verið mildari við bók­menntir heldur en aðrar list­greinar segir Heiðar Ingi:

„Kannski eru þetta búnar að vera að ein­hverju leyti kjör­að­stæður fyrir rit­höfunda, að skrifa í betra næði og ein­veru. En þetta ár í fyrra var að mörgu leyti líka mjög erfitt. Bóka­búðir voru náttúr­lega lokaðar að hluta til og sala á nýjum kiljum í Leifs­stöð hrundi og hefur ekki náð sér upp aftur nema að hluta til. En á móti þessu kemur svo mikil aukning í sölu og hlustun á hljóð­bækur.“

Jólabókaflóðið er eitt af merkilegustu bókmenntafyrirbærum okkar Íslendinga.
Fréttablaðið/Valli

Bókin er eins og kakka­lakki

Sverrir Nor­land er eins konar kameljón þegar kemur að bók­menntum, en hann starfar jöfnum höndum sem rit­höfundur, út­gefandi, gagn­rýnandi og fyrir­lesari. Sverrir hefur sjálfur þurft að fresta ýmsum við­burðum í tengslum við út­gáfur sínar, en for­lagið hans, AM For­lag, sendi ný­lega frá sér þrjár þýddar barna­bækur, Heimili, Kva es þak? og Stysti dagurinn eftir Car­son Ellis, auk mynda­sögunnar Eld­hugar: Konurnar sem gerðu að­eins það sem þær vildu, eftir Péné­lope Bagi­eu.

„Það átti að vera bóka­messa núna í Hörpu. Henni var frestað og sem lítill út­gefandi sel ég alltaf svo­lítið á svona við­burðum, þannig að það var mjög leiðin­legt. Sumir af fyrir­lestrunum sem ég átti að vera með hafa frestast og við­burðir í kringum út­gáfuna okkar. Allt þetta hefur svo­lítil á­hrif, þannig að ég er orðinn ansi þreyttur á þessu. Þegar ríkis­starfs­menn taka á­kvarðanir um að setja sam­komu­tak­markanir, þá kannski í sinni búbblu átta þeir sig ekki alveg á því, en þetta snertir menninguna mjög mikið,“ segir Sverrir.

Spurður hvort hann telji að jóla­bóka­flóðið muni halda velli í skugga efna­hags­þrenginga og minnkandi bók­lesturs, segist Sverrir vera þreyttur á svart­sýnis­spám og kýs sjálfur að sporna við þeim með já­kvæðri orku.

„Það er magnað hversu margir lesa, hugsa, hafa á­huga á bókum. Ég hef aldrei hitt neinn sem er ekki for­vitinn, sem langar ekki að kynnast nýjum hug­myndum, sögum. Bókin virðist vera eins og kakka­lakki, líf­seigasta formið, stendur allt af sér í kjarn­orku­sprengingu tækninnar. Það er ein­fald­lega ekki hægt að betr­um­bæta hana eða færa lestrar­upp­lifunina, svo að vel sé, yfir á annað form.

Þess vegna mun bókin lifa. En það þarf að venja yngra fólk á þennan lúxus, sem er að gefa sér tíma til að lesa. Sá sem situr ein­hvers staðar í símanum sínum virkar ein­hvern veginn ekki frjáls á mig, en sá sem er að lesa bók kýs að verja tíma með sjálfum sér og hugsunum höfundarins. Það er svo fal­legt. Ég trúi á þetta, þessa tengingu. Hún mun lifa.“