„Bókanir hafa farið vel af stað og eru framar væntingum. Það er líka áhugavert að heyra af því að útlendingar séu farnir að breyta fyrri hótelbókunum sínum til að aðlaga dvölina að flugáætlun Niceair,“ segir Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson hjá Niceair.

Hið norðlenska flugfélag opnaði bókanasíðu félagsins í fyrradag. Má sjá af viðbrögðum Norðlendinga á samfélagsmiðlum að mikil ánægja hefur skapast bæði með flugtíma og verð.

Áætlanaflug hefst frá Akureyrarflugvelli í byrjun júní. Fyrsta flugið verður til Kaupmannahafnar en einnig verður flogið til London og Tenerife.

Þorvaldur Lúðvík segir áætlunarflugið fyrstu reglubundnu samgöngurnar milli Akureyrar og umheimsins í meira en hundrað ár. „Við getum talað um að það þurfi að fara aftur til þess tíma þegar Gránufélagið var og hét í siglingum, þegar síðast voru reglubundnar samgöngur við útlönd frá Akureyri,“ segir Þorvaldur Lúðvík. „Samfélög geta ekki þroskast að fullu nema hafa alþjóðasamgöngur, til viðbótar við fólk, fjármagn, tækni og fjarskipti,“ bætir hann við.

Þorvaldur Lúðvík bendir á að burtséð frá jákvæðum tækifærum fyrir heimamenn hagnist Ísland allt með greiðari aðgangi erlendra ferðamanna sem víðast um landið.

„Rannsóknir sýna að 70% farþega sem hafa komið til Íslands og vilja koma aftur, vilja komast beint út á land. Þeir eru þá búnir að sjá Gullfoss, Geysi, suðurströndina og Reykjavík, sem er fínt, en nú stækkar kakan og auðveldara verður að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur í markaðssetningu Íslands.“

Atli Örvarsson tónskáld er í hópi fjárfesta Niceair.

„Sannleikurinn er sá að þegar fólk á þessu svæði vill komast til útlanda hafa iðulega farið tveir dagar í ferðina, sem þýðir vinnutap, kostnað við að koma sér suður og kostnað við gistingu í Reykjavík eða í Keflavík. Nú munum við vakna á kristilegum tíma að morgni dags, það tekur mig fimm mínútur að fara út á flugvöll, svo lendir maður í London fjórum tímum síðar. Þetta verður algjör bylting,“ segir Atli.

Hann segist hafa tekið þátt í stofnun hlutafélagsins vegna þess að vandfundið sé gagnlegra verkefni. Hann nefnir sem dæmi að viðskiptavinir SinfonIa Nord hafi sagt að ef beint flug væri milli Akureyrar og London gætu viðskipti aukist til mikilla muna. Því séu ótalmargir fletir á jákvæðum áhrifum af stofnun flugfélagsins og þess vegna hafi hann ákveðið að taka þátt og sitja í stjórn félagsins.

„Ég held líka að þegar verður búið að opna þessa gátt milli umheimsins og Akureyrar geti orðið mikil jákvæð menningarleg breyting,“ segir Atli.

Niceair.jpg