Fyrstu hóppantanirnar erlendis frá, eftir að kórónuveirufaraldurinn byrjaði að geisa, hafa borist til Ferðafélags Íslands. Tveir þýskir hópar pöntuðu í vikunni ferðir og gistingu í skálum félagsins í ágúst og greiddu þær upp að fullu. „Þetta eru tveir litlir hópar en vissulega mjög ánægjuleg tíðindi,“ staðfestir Páll Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ferðafélagsins.

Skálar félagsins á hálendinu opna fyrir gistingu í lok júní og segir Páll að síðustu mánuðir hafi verið sérstakir. „Óvissan hefur verið mikil en það sem hefur komið okkur á óvart er að mjög lítið hefur verið um afbókað skálapláss í sumar. Fólk hefur haldið að sér höndum, Íslendingar og útlendingar. Það bendir til þess að erlendir ferðamenn hafi haldið í vonina um að geta heimsótt landið þrátt fyrir allt og ekki viljað slá ferðina til Íslands út af borðinu,” segir Páll.

Hann segist hafa orðið var við mikinn áhuga Íslendinga á ferðum upp á hálendið. Það skapi þó ákveðin vandræði því að ekki sé hægt að selja þeim gistingu sem þegar hefur verið bókuð af útlendingum.

„Við verðum heldur betur vör við það að Íslendingar ætla að ferðast innanlands í sumar.

Það er mikið um fyrirspurnir og síðustu misseri hafa um 200 nýir félagsmenn gengið í Ferðafélag Íslands. Núna eru meðlimir orðnir um tíu þúsund talsins “ segir Páll.