Bókamessan í Hörpu sem átti að fara fram næstu helgi hefur verið slegin af annað árið í röð vegna Covid-19. Ný dagskrá verður kynnt síðar í vikunni en hún mun fara fram rafrænt.

Heiðar Ingi Svansson, formaður Félags íslenskra bókaútgefanda, segir þetta mikið áfall og að ákvörðunin hafi ekki verið auðveld, „hún tók sig nú kannski svolítið sjálf.“

„Við ætluðum að fagna 10 ára afmæli í fyrra og frestuðum því þar til í ár og nú frestum við því enn og aftur,“ segir Heiðar Ingi.

Að sögn Heiðars Inga var ákvörðunin tekin í síðustu viku, viðburðurinn sé stór og margir komi að honum. Það hafi því þurft að taka ákvörðun með góðum fyrirvara með hagsmuni allra aðila að leiðarljósi.

„Þetta er náttúrulega áfall fyrir alla sem koma að þessu. Þetta er eini vettvangurinn í jólavertíðinni þar sem bæði útgefendur og höfundar hafa átt þess kost að vera í beinu og milliliðalausu sambandi við lesendur sína,“ segir Heiðar Ingi. Hann segir að málið verði leist, það verði rafrænir viðburðir líkt og í fyrra.

„Það kemur samt ekkert í staðin fyrir að hitta fólk augliti til auglitis,“ segir Heiðar Ingi.

Heiðar Ingi segir að verið sé að ganga frá lausum endum fyrir dagskrá viðburða en dagskráin muni ná yfir lengri tíma. Dagskráin hefjist um helgina á þeim tíma sem messan átti að vera og standi til 8. desember. Tilkynning verði send út á heimasíðunni bokmenntaborgin.is og á Facebook-síðu þeirra síðar í vikunni.