Lágmarksstarfssemi verður á heilgæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu fram að hádegi á morgun í samræmi við tilmæli Almannavarna. „Hafið samband við stöðvarnar til að færa bókaða tíma. Við munum leggja okkur fram um að leysa það sem best.“ Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Heilsugæslunnar.

Allir bókaðir tímar á heilgæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu falla niður í fyrramálið en þó verða nokkrar stöðvar opnar með lágmarksmönnun til að sinna bráðavandamálum.

Búið er að lýsa yfir óvissustigi vegna aftakaveðurs sem mun skella á um allt land á morgun. Frá klukkan 5 til 12 á morgun verður austan rok eða ofsaveður eða jafnvel fárviðri að sögn Veðurstofu. Vindhraði verður í kringum 28 til 35 metrar á sekúndu. Mest verður undir Eyjafjöllum við Ingólfsfjall og á heiðum, 55 metrar á sekúndu. Rauð viðvörun verður í gildi.

Ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð

Þá verður snjókoma með köflum og mikill skafrenningur og lélegt skyggni. Sjávarstaða er hækkuð og mikill áhlaðandi og ölduhæð. Líkur eryu á að smábátar geti laskast eða losnað frá bryggju. Hætta er á foktjóni og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Hætt er við foktjóni og eru byggingaraðilar hvattir til að ganga vel frá framkvæmdarsvæðum. Fólki er bent á að ganga frá lausum munum og vera ekki á ferð. Örfá hverfi á höfuðborgarsvæðinu eru í þokkalegu skjóli fyrir austanátt.