Heil 44 ár eru liðin síðan Bogi Ágústsson hóf störf á skjáum landsmanna. Árið 1977 stimplaði hann sig inn sem fréttamaður í erlendum fréttum. Fyrsta þátttaka hans í kosningasjónvarpinu var 1978. Hann varð leiðandi andlit á kosningavöku eftir að hann varð fréttastjóri árið 1988.

Síðan hefur hann meira og minna tekið þátt í öllum kosningasjónvörpum RÚV. Í seinni tíð með Ólaf Harðarson stjórnmálafræðiprófessor sér þétt við hlið.

„Við getum sagt að þróun grafískrar framsetningar í kosningasjónvarpi sé helsta byltingin frá fyrri tímum. Svo hefur orðið sú mikla breyting að kosningasjónvarpið var lengi framan af ekki síður skemmtiþáttur en kosningavaka. Við vorum með hljómsveitir inni í stúdíói og aðra listamenn sem fylltu upp milli þess sem tölur bárust og mikið skemmtiefni tilbúið á myndböndum. Núna er þetta aftur á móti mestmegnis pólitík,“ segir Bogi sem man tímana tvenna.

Atkvæðatalningin algjört rugl

Honum er þó það sem hefur ekki breyst ofar í huga.„Illu heilli er það talningin. Það hefur orðið gríðarleg þróun á flestum öðrum sviðum, allt gerist hraðar, en talningin er jafn sein og illa skipulögð og hún hefur alltaf verið. Ég tek fram að ég er ekki að kenna starfsfólki kjörstjórna um, heldur hefur löggjafinn ekki viljað gera neinar breytingar.

Af hverju í fjáranum erum við með kjörstaði opna til klukkan 10 á kvöldin á frídegi og af hverju krefjast lög og reglur þess að ekki sé byrjað að telja fyrr en búið er að loka kjörstöðum? Og af hverju má bara telja á einum stað innan kjördæmis?“ segir Bogi.Hann bendir á að Færeyingar, nágrannar okkar, telji á mörgum stöðum og sendi svo tölurnar áfram.

Augljóst sé að talning atkvæða gæti gengið miklu hraðar fyrir sig. Oft séu kosningar að vetri, eða í veðri sem hamli för atkvæðanna milli landshluta. Eyjar gætu lokast. „Hvaða rugl er að ekki megi bara telja atkvæðin þar og senda svo tölurnar til yfirkjörstjórnar í kjördæminu?“ spyr Bogi Ágústsson.

Vill vinna sem lengst hjá RÚV

Mikil dramatík getur skapast á kosninganótt, ekki síst þegar líf ríkisstjórna hangir á örfáum atkvæðum. Miklar vendingar verða stundum frá fyrstu tölum og segir Bogi að vel megi kalla komandi nótt „nótt hinna löngu hnífa“.Ef talning dregst úr hömlu gæti hann þurft að vera á skjáum landsmanna til klukkan níu á sunnudagsmorgun.

Það myndi þýða 24 stunda vinnutörn, því stífar æfingar verða hjá RÚV í dag og hefjast snemma. Spurður hvernig slík maraþonvinna, þar sem allt liggur undir að halda andlitinu í beinni útsendingu, rífi ekki í heilsu manns á hans aldri, svarar Bogi að hann sé í þokkalega góðu formi og vilji vinna hjá RÚV eins lengi og RÚV vill hafa hann, það er að segja ef áhugi hans sjálfs og heilsa leyfi.

„Það er nú þetta með aldurinn og hve afstæður hann er, að ef heilsan er góð getur fólk haldið sér ungu andlega. Sumir fæðast gamlir, aðrir geta haldið sér ungum í anda. Maður á mínum aldri á val um að vera „grand old man“ eða „grumpy old man“, grautfúlt gamalmenni. Ég vil síður falla í seinni hópinn.“

Bogi Ágústsson og ÓIafur Þ. Harðarson munu standa í ströngu í kvöld.

Um Ólaf Harðarson prófessor sem stendur venju samkvæmt kosningavaktina líka, segir Bogi að samband þeirra tveggja sé gott, þeir eigi mjög gott með að vinna saman þrátt fyrir að annar styðji FH en hinn KR. Stundum séu þeir tveir kallaðir Knold og Tot eða gömlu karlarnir í Prúðuleikurunum en það sé allt í lagi.„Það er nefnilega frekar stutt síðan ég fór að átta mig á að það er ekki verið að tala um mig þegar orðið æskudýrkun ber á góma,“ segir Bogi sem verður sjötugur á næsta ári.