Oddný G. Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í morgun bera einkenni slæmrar hagstjórnar að undanförnu og að þau sem þurfa mest á þjónustu ríkisins að halda verði látin bera þungan af niðursveiflu í efnahagskerfinu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í dag kynnti Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar til næstu fimm ára. Oddný Harðardóttir segir í samtali við Fréttablaðið að áætlunin byggi á grunni sem fékk falleinkunn á síðasta ári. „Þessi fjármálaáætlun er byggð á síðustu fjármálaáætlun, sem fékk falleinkunn frá Fjármálaráði. Það sem er ólíkt á milli þeirra er að það sé gert ráð fyrir samdrætti í efnahag og 10 milljarð króna niðurskurði,“ segir Oddný í samtali við Fréttablaðið.

Gert ráð fyrir 3,8 prósent launahækkun

Oddný gagnrýnir það að aðeins sé gert ráð fyrir 0,5 prósenta launahækkun fyrir ríkisstarfsmenn umfram verðlag, þ.e.a.s. 3,8 prósent hækkun í heildina. „Ef launahækkanir fara umfram það, sem allar líkur eru á, þá þurfa ráðuneytin að skera niður fyrir því, sem er til viðbótar við niðurskurðinn sem þegar er að finna í fjármálaáætluninni.“ Hún segir að þessar forsendur komi til með að koma verst niður á stórum kvennastéttum sem vinna fyrir hið opinbera; hjúkrunarfræðinga, sjúkraliða og kennara.

Ekki reiknað með WOW

Eins og vitað er er flugfélagið WOW í krappri stöðu og hefur róað lífróðri undanfarna mánuði. Fréttablaðið greindi frá því í morgun að fari flugfélagið í þrot gæti það leitt til 2,7 prósenta samdrætti í landsframleiðslu. Oddný gagnrýnir að ekki sé vikið að þessu í fjármálaáætlun. „Þessi fjármálaáætlun gerir heldur ekki ráð fyrir að illa gæti farið fyrir WOW air. Fari illa fyrir því þarf að grípa til enn frekari ráðstafanna,“ segir Oddný. 

Slæm hagstjórn dregur dilk á eftir sér

Oddný segir að ríkisstjórnin ætli að láta þá sem helst þurfa á stuðningi ríkisins að halda bera þungan af niðursveiflu í efnahagslífinu. „Alveg sama hvert litið er, þeir sem þurfa á þjónustu ríkisins að halda; börn, fatlaðir og sjúklingar, eru látnir bera niðursveifluna,“ segir Oddný. „Þessar ráðstafanir eru gerðar um leið og það er ákveðið að lækka bankaskatt um sjö milljarða og hvergi er gert ráð fyrir auðlegðarskatti eða auknum auðlindagjöldum,“ heldur hún áfram. „Það er ekki verið að gera ráð fyrir öðrum skattalækkunum eða viðbótum í barnabótum við það sem þegar er búið að kynna.“

Hún segir áætlunina bera slæmri hagstjórn að undanförnu vitni. „Það er almenn þekking að auka ríkisútgjöld í niðursveiflu til þess að hlífa almenningi. Í uppsveiflunni núna voru skattar lækkaðir, í stað þess að hækka þá og láta afgang af ríkissjóði mæta niðursveiflunni frekar en að velferðarkerfið sé látið gera það. Það er einkenni hægristjórna að gera þetta svona,“ segir Oddný að lokum.