Framkvæmdastjóri Boeing hefur viðurkennt mistök fyrirtækisins í framleiðsluferli 737 MAX vélanna. Þannig lét fyrirtækið eftirlitsaðila ekki vita að öryggisvísir í flugstjórnarklefum vélanna virkaði ekki.

New York Times greindi frá því fyrr í mánuðinum að Boeing hefði flýtt framleiðsluferli 737 MAX vélanna þegar þeir reyndu að keppa við nýjar vélar Airbus. Fyrirtækið hafi ekki látið reynsluflugmenn, verkfræðinga og eftirlitsaðila vita um mikilvægi svokallaðs MCAS hugbúnaðar sem var nýr í vélunum. Honum er ætlað að koma í veg fyrir að vélarnar ofrísi en vanþekking flugmanna á búnaðinum er talin hafa valdið flugslysunum tveimur sem urðu 346 manns að bana.

Dennis Muilenburg, framkvæmdastjóri Boeing, sagði í samtali við franska fjölmiðla í dag að samskiptaörðugleikar innan fyrirtækisins hefðu valdið vandræðunum. Um óásættanleg mistök hafi verið að ræða en þá vantaði til dæmis kafla um MACS hugbúnaðinn í handbók flugmanna og sleppti fyrirtækið því að þjálfa flugmenn sérstaklega fyrir nýju vélarnar.

Muilenburg hefur lofað gagnsæi í aðgerðum fyrirtækisins sem reynir nú að fá vélarnar aftur í loftið en þær hafa verið kyrrsettar um heim allan. Hann segir Boeing taka á málinu af auðmýkt og einbeiti sér nú að því að endurheimta traust viðskiptavina sinna.