Nýleg tilkynning frá Boeing hefur vakið upp spurningar um hvort flugvélaframleiðandinn stefni að því að endurnefna 737 MAX þotur sínar.

Hafa umræddar flugvélar verið bandaríska fyrirtækinu til mikilla vandkvæða eftir að 346 létust í tveimur flugslysum sem talið er að rekja megi til hönnunargalla. 737 MAX þoturnar hafa nú verið kyrrsettar um allan heim frá því í mars á síðasta ári.

Í tilkynningunni sem varðar kaup pólska flugfélagsins Enter Air á fjórum slíkum flugvélum vísa forsvarsmenn Boeing og flugfélagsins til þeirra sem Boeing 737-8 áður en minnst er á MAX.

Hefur það heiti einungis verið notað meðal starfsmanna Boeing fram að þessu, að sögn breska miðilsins The Guardian.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Boeing kýs að sleppa MAX viðurnefninu en greint var frá því í júlí að nýjar vélar sem afhentar voru írska flugvélaginu Ryanair hafi verið merktar 737-8200.