Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur kyrrsett allan flotann af 737 Max 8 flugvélum eftir að rannsókn á flugslysinu í Eþíópíu leiddu í ljós líkindi milli þess og flugslyss Lion Air í október, en um sömu gerð flugvéla var að ræða.

Áður var búið að banna flug 737 Max 8 flugvéla í mörgum löndum, þar á meðan Bandaríkjunum, Bretlandi, Kína, Kanada, Indlandi og Ástralíu.

Allir 157 farþegarnir í vél Ethiopian Airlines sem brotlenti á sunnudag létust í slysinu. Flugritar vélarinnar hafa verið sendir til greiningar í París.

Dan Elwell, starfandi stjórnandi flugmálaeftirlits Bandaríkjanna, sagði í gær að það hefði orðið ljóst að mikil líkindi væru á milli flugs vélanna frá Ethiopian Airlines og Lion Air sem brotlentu og að sönnunargögn sem fundust á jörðu niðri styðji þetta. Fram til þessa hafa bandarísk flugmálayfirvöld fullyrt að vélarnar væru fullkomlega flughæfar.

Fulltrúar Boeing segja að þau hafi enn fulla trú á öryggi vélanna, en að það hafi verið ákveðið að kyrrsetja allan flotann til að gæta fyllsta öryggis og til að fullvissa almenning um að vélarnar væru öruggar.

Hlutabréf í Boeing hækkuðu eftir þessa tilkynningu, en síðan flugslysið varð á sunnudag hafa þau fallið í verði um næstum 26 milljarða bandaríkjadollara.