Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur afhent síðustu Boeing 747-flugvélina til fraktflugfélagsins Atlas Air. Flugvélin er sú síðasta sinnar tegundar sem smíðuð verður og markar salan þar með endalok tímabils júmbóþotunnar.
Þúsundir starfsmanna Boeing fylgdust með afhendingunni, þar á meðal nokkrir úr hinu upprunalega teymi starfsmanna sem hönnuðu flugvélina á sjöunda áratug seinustu aldar. Flugvélin markaði mikil tímamót í flugsamgöngum og átti hún stóran þátt í að lækka flugfargjöld. Hún veitti einnig fleirum tækifæri til að fljúga á milli heimshluta og var sterkt tákn bandarískrar flugmenningar.
Viðburðinum lauk með óvæntri heimsókn John Travolta sem sagði áhorfendum frá því þegar hann lærði á 747-þotuna á meðan hann var erindreki ástralska flugfélagsins Qantas Airlines. Leikarinn sagði námskeiðið hafa verið það erfiðasta sem til væri fyrir atvinnuflugmann en sagði einnig þotuna vera eina þá öruggustu sem hefur verið smíðuð.
Þotan öðlaðist viðurnefnið „drottning himinsins“ og var hún fyrsta flugvél sem búin var tveggja-gangvega farþegarými. Það tók starfsmenn Boeing um 28 mánuði að smíða flugvélina og árið 1970 varð Pan Am fyrsta flugfélagið til að kynna hana til starfa.
Framleiðsla þotunnar hefur ætíð farið fram í verksmiðju Boeing sem staðsett er í borginni Everett í Washington-fylki. Verksmiðjan var byggð árið 1967 til að þjónusta framleiðslu þotunnar og heldur Boeing því fram að flugskýlið sem hýsir verksmiðjuna sé það stærsta í heimi enn þann dag í dag.
Eftir fimm áratuga framleiðslu dró hins vegar úr eftirspurninni á 747-þotunni og við tóku sparneytnari tveggja hreyfla breiðþotur frá bæði Boeing og Airbus. Boeing tilkynnti svo í júlí 2020 að fyrirtækið myndi hætta við framleiðslu á fleiri 747-þotum en á þeim tíma var framleiðslan ekki nema um hálf þota á mánuði.
Starfsmenn sem unnu við framleiðslu vélarinnar voru annað hvort færðir yfir í aðrar deildir eða sögðu sjálfviljugir upp störfum. Smíði á síðustu 747-þotunni kláraðist svo 7. desember í fyrra og hafði Boeing þá framleitt 1.574 slíkar þotur.
Eyjólfur Vestmann Ingólfsson, rekstrarstjóri hjá Inter Continental Aviation, segir það vera mikinn skaða fyrir flugheiminn að missa Boeing 747-þotuna. „Fyrst missir heimurinn Bretlandsdrottningu og fljótlega eftir það missum við svo aðra drottningu.“
Hann segir þotuna hafa verið mikið afrek þegar hún kom fyrst á markað og hvað varðar fraktflutninga hafi hún mikla yfirburði yfir tveggja hreyfla flugvélar. Eyjólfur bendir líka á að þrátt fyrir áframhaldandi notkun eldri 747-véla verði sífellt erfiðara að nálgast varahluti í þær.
„Spurningin fyrir fraktflugfélögin er: Hvað gera þau þegar þau geta ekki lengur hlaðið farminn sinn að framan? Þar sem 747-fraktþotur opnuðust að framan þurfti ekki að snúa pallettunum við og eins var hægt að koma fyrir lengri varningi eins og rútum. Þú gerir það ekkert á þessum minni breiðþotum,“ segir Eyjólfur.