Framkvæmdastjóri Boeing, Dennis Muilenburg, greindi frá því fyrr í dag að fyrirtækið ætli að draga úr framleiðslu á 737 MAX vélunum. Frá og með miðjum aprílmánuði verða aðeins framleiddar 42 vélar á mánuði í stað þeirra 52 sem áður voru framleiddar í hverjum mánuði. Þrátt fyrir að framleiðsla minnki munu allir starfsmenn hald vinnunni á meðan unnið er að því að þróa vélarnar áfram.

Muilenburg segir í tilkynningunni að þau viti að röð atvika hafi orsakað flugslysin hjá bæði Lion Air og Ethiopian Airlines sem megi rekja til galla í svokölluðu MCAS kerfi.

„Okkur ber skylda til að eyða áhættunni, og við vitum hvernig á að gera það. Sem hluti af þessu átaki, erum við komin lengra með uppfærslu á 737 MAX kerfinu sem mun koma í veg fyrir að slík slys eigi sér stað nokkurn tíma aftur,“ segir Muilenburg í yfirlýsingunni.

Þar segir einnig að þau vinni að því að búa til ný þjálfunarnámskeið og annað fræðsluefni.

Muilenburg baðst afsökunar í gær fyrir hönd fyrirtækisins á flugslysunum og viðurkenndi í fyrsta skipti opinberlega að MCAS kerfin átti þátt í því að vélarnar tvær hröpuðu stuttu eftir að þær tóku á loft. Faðir annars flugmannsins sem flaug vél Ethiopian Airlines og hrapaði aðeins sex mínútum eftir að hún tók á loft sagði að afsökunarbeiðnin hafi komið allt of seint. Greint er frá á BBC.

Afsökunarbeiðni Boeing má sjá hér að neðan.