Icelandair ætlar að hefja flutning á far­þegum sem eru fastir í Kefla­vík vegna veðurs til Reykja­víkur með Boeing 757 þotum á há­degi í dag.

Þetta stað­festir Ás­dís Ýr Péturs­dóttir upp­lýsinga­full­trúi flug­fé­lagsins í sam­tali við Frétta­blaðið. Eins og fram hefur komið eru hundruð far­þega fastir í Kefla­vík vegna lokunar Reykja­nes­brautar.

Að sögn Ás­dísar er gert ráð fyrir að fyrsta þotan lendi á Reykja­víkur­flug­velli um klukkan 12:20 í dag. Hún tekur fram að það geti þó breyst og segir hún flug­fé­lagið fylgjast vel með stöðunni, vegna veðurs og vega­lokana.

Eins og fram kom í gær hefur Icelandair þegar hafist handa við að ferja á­hafnir frá Kefla­vík til Reykja­víkur með innan­lands­flug­vélum. „Þegar svona að­stæður steðja að verðum við að hugsa út fyrir boxið,“ segir Ás­dís en Reykja­nes­braut hefur sjaldan eða jafn­vel aldrei verið lokuð eins lengi og nú.

500 til 700 manns strandaglópar

Að sögn Ásdísar þá komu 500 manns frá Bandaríkjunum með Icelandair í morgun sem eru fastir í flugstöðinni, auk þess eru þar um 200 aðrir farþegar, en Ásdís veit ekki hversu margir eru þar á vegum Icelandair.

,,Við búumst við að fara að minnsta kosti tvær ferðir með Boeing757 þotum frá Keflavík til Reykjavíkurflugvallar með þessa farþega og byrjum líklega að ferja strandaglópana um hádegið. Boeing 757 300 taka um 183 farþega, segir Ásdís.