Flugvél bandaríska flugfélagsins Southwest Airlines, af gerðinni Boeing 737 Max varð að nauðlenda nú síðdegis á alþjóðaflugvellinum í Orlando í Flórída en flugvélin var á leiðinni til Victorsville í Kaliforníu. Þar á hún að vera í geymslu en vélin var kyrrsett nú á dögunum að fyrirskipan Donald Trump, Bandaríkjaforseta.

Samkvæmt staðarmiðlum voru einungis flugmennirnir um borð en ekki hefur komið fram hvað olli því að vélin varð að nauðlenda með þessum hætti. Eins ogFréttablaðið hefur greint frá fer nú viðamikil rannsókn fram á hvað gæti hafa ollið því að vélar af þessari gerð fórust í Indónesíu og í Eþíópíu á skömmum tíma. 

Samkvæmt heimildum New York Times hafa prófanir í flughermum leitt í ljós að vegna galla í hugbúnaðar höfðu flugmenn vélarinnar í Indónesíu einungis 40 sekúndur til að koma í veg fyrir að búnaður sem hannaður var til að koma í veg fyrir ofris, steypti vélinni til jarðar.