Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra, hefur lagt fyrir Al­þingi þings­á­lyktunar­til­lögu sem boðar skyldu­nám­skeið um hatur­s­orð­ræðu fyrir kjörna full­trúa og opin­bera starfs­menn. Til­lagan er í sam­ráðs­gátt stjórn­valda og byggir á vinnu starfs­hóps um hvað hægt sé að gera til að sporna við hatur­s­orð­ræðu.

„Það eru vís­bendingar um að það sé vaxandi hatur­s­orð­ræða í sam­fé­laginu og eigin­lega svona þyngsta á­herslan í þessari á­ætlun var að það ætti að auka fræðslu,“ segir Katrín í sam­tali við Bítið á Bylgjunni. Katrín segir um­ræðuna flókna þar sem allt sem sé kallað hatur­s­orð­ræða sé kannski ekki hatur­s­orð­ræða.

„Þannig það skiptir máli að efla fræðslu og um­ræðu og þar var horft til þess að það væri mikil­vægt að auka fræðslu til þeirra sem kannski þyrftu hana sér­stak­lega vegna starfs síns,“ og bætir við að það sé kveðið á um það í á­ætluninni að verið sé að horfa til opin­berra starfs­manna þar sem þeir hafi sér­stakar skyldur að gæta ó­hlut­drægni í sínum störfum.

„Það er auð­vitað ekki nema eðli­legt að við gerum ríkar kröfur til fólks í slíkum stöðum, að þau séu með­vituð um þessi mál­efni.“

Spurð segir Katrín að hún telji sig hafa gott af því að fara á slíkt nám­skeið. Þó hún telji sig hafa til­finningu fyrir því þá sé hún ekki endi­lega með allar skil­greiningar á hreinu.

„Við vitum auð­vitað öll inn í okkur hve­nær okkur finnst eitt­hvað ganga yfir mörk, en svo vitum við líka að mörkin hafa verið að færast á undan­förnum árum af því að sam­fé­lagið breytist og menningin,“ segir Katrín.

Þá sé mikil­vægt að vekja upp um­ræðu og með­vitund al­mennings um þessi mál í stað þess að prédika yfir fólki.