Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur lagt fyrir Alþingi þingsályktunartillögu sem boðar skyldunámskeið um hatursorðræðu fyrir kjörna fulltrúa og opinbera starfsmenn. Tillagan er í samráðsgátt stjórnvalda og byggir á vinnu starfshóps um hvað hægt sé að gera til að sporna við hatursorðræðu.
„Það eru vísbendingar um að það sé vaxandi hatursorðræða í samfélaginu og eiginlega svona þyngsta áherslan í þessari áætlun var að það ætti að auka fræðslu,“ segir Katrín í samtali við Bítið á Bylgjunni. Katrín segir umræðuna flókna þar sem allt sem sé kallað hatursorðræða sé kannski ekki hatursorðræða.
„Þannig það skiptir máli að efla fræðslu og umræðu og þar var horft til þess að það væri mikilvægt að auka fræðslu til þeirra sem kannski þyrftu hana sérstaklega vegna starfs síns,“ og bætir við að það sé kveðið á um það í áætluninni að verið sé að horfa til opinberra starfsmanna þar sem þeir hafi sérstakar skyldur að gæta óhlutdrægni í sínum störfum.
„Það er auðvitað ekki nema eðlilegt að við gerum ríkar kröfur til fólks í slíkum stöðum, að þau séu meðvituð um þessi málefni.“
Spurð segir Katrín að hún telji sig hafa gott af því að fara á slíkt námskeið. Þó hún telji sig hafa tilfinningu fyrir því þá sé hún ekki endilega með allar skilgreiningar á hreinu.
„Við vitum auðvitað öll inn í okkur hvenær okkur finnst eitthvað ganga yfir mörk, en svo vitum við líka að mörkin hafa verið að færast á undanförnum árum af því að samfélagið breytist og menningin,“ segir Katrín.
Þá sé mikilvægt að vekja upp umræðu og meðvitund almennings um þessi mál í stað þess að prédika yfir fólki.