Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir til­kynnti það á upp­lýsinga­fundi al­manna­varna í dag að hann myndi að öllu ó­breyttu mæla með því við heil­brigðis­ráð­herra að slaka á sam­komu­tak­mörkunum og leyfa þúsund manns að koma saman í byrjun ágúst. Hann sagðist sömu­leiðis ætla að mæla með því að opnunar­tími veitinga- og skemmti­staða yrði rýmkaður.

Þór­ólfur í­trekaði þó að allt þetta væri háð því að far­aldurinn næði sér ekki á strik aftur á landinu og að þróun hans yrði með sama hætti og hún hefði verið síðustu daga. Eftir að nokkur innan­lands­smit greindust fyrir tveimur vikum dró Þór­ólfur fyrri á­ætlanir sínar um leyfa fjöl­mennari sam­komur til baka og sagðist telja best að halda 500 manna sam­komu­banni út ágúst­mánuð.

Fá smit forsenda rýmkunar

„Í ljósi þess að það hefur lítið smit greinst núna undan­farnar tvær vikur hér innan­lands þá held ég að það sé hægt að mæla með rýmkun á þessum fjölda­tak­mörkunum fyrr en ég talaði um og mun ég mælast til þess við ráð­herra nú á næstunni að breyting verði gerð á há­marks­tölu í byrjun ágúst,“ sagði hann. „En það verður væntan­lega ekki tekið í gildi fyrr en eftir verslunar­manna­helgina.“

Hann benti á að nú­verandi aug­lýsing ráð­herra um fjölda­tak­markanir gilti til 26. júlí og má því ætlast til þess að hún verði fram­lengt ó­breytt að minnsta kosti fram yfir verslunar­manna­helgi. „Til að fara til­tölu­lega var­lega þá mun ég senni­lega mæla með því að farið verði upp í þúsund manna há­mark og sömu­leiðis á að vera hægt að mæla með rýmkun á opnunar­tíma veitinga- og skemmti­staða í byrjun ágúst,“ sagði hann.

Staðirnir mega nú að­eins vera opnir til klukkan 23 á kvöldin og hafa margir skemmti­staða­eig­endur lýst miklum rekstrar­vand­ræðum, enda gengur rekstur þeirra flestra út á að selja drykki á nætur­lífinu. Þór­ólfur hefur áður talað um að rýmka opnunar­tímann til klukkan eitt um nótt en sagði ekkert um mögu­legan opnunar­tíma á fundinum í dag.