„Vanfjármögnun ríkisins á málaflokki fatlaðs fólks er meginorsök fjárhagsvanda margra sveitarfélaga,“ sagði Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, í setningarræðu sinni á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga sem hófst í morgun.

Sveitarfélögin sendu frá sér harðorða yfirlýsingu í upphafi mánaðar um bága fjárhagsstöðu sveitarfélaga um allt land og að hana mætti rekja til vanfjármögnunar ríkisins. Þar muni langmest um málaflokk fatlaðs fólks.

Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, steig í pontu á eftir Heiðu Björg en hann sagði fjárhagsvanda sveitarfélaga fjölþættari en svo að aðeins væri hægt að tengja hann málefnum fatlaðs fólks.

„Líkt og hefur komið fram í opinberri umræðu þá er engu að síður ljóst að umfang fjárhagsvandans í þessum málaflokki er orðið af þeirri stærðargráðu að tilefni gæti verið til að mæta honum sem fyrst með ráðstöfunum til bráðabirgða þar til fullnaðaruppgjör og greining liggur fyrir af hálfu sérstakrar nefndar sem hefur málið til umfjöllunar,“ sagði Sigurður Ingi jafnframt og vísaði til vinnuhóps um kostnaðarskiptingu í málefnum fatlaðs fólks.

Sigurður Ingi sagði mikilvægt að stuðningur til sveitarfélaga yrði veittur í þeirri mynd að hækka tekjur þeirra fremur en að ríkið færi að leggja bein framlög inn til að fjármagna hluta af rekstri tiltekins málaflokks.

Nefndi hann að til standi að heimila útsvarshækkun um 0,26 prósent um næstu áramót og á móti lækka tekjuskattinn um sömu prósentu þannig að skattgreiðendur væru jafnsettir eftir sem áður. Það gæti samsvarað fimm til sex milljörðum króna.