„Við viljum að Ísland sýni ábyrgð gagnvart afgönsku þjóðinni, nú þegar flóttamannastraumurinn frá Kabúl er brostinn á,“ segir Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra, en hann fer með málefni flóttamanna sem koma hingað til lands.
Ráðherra kallaði flóttamannanefnd á fund í gær til að meta stöðuna og væntir tillagna frá henni til stjórnvalda um það hversu hratt verði hægt að bregðast við ákalli Afgana um landvist. „Ég væri ekki að biðja um þessi ráð ef við ætluðum ekkert að aðhafast.“
Hann segir stöðuna hræðilega. „Valdataka talíbana bitnar skelfilega á konum og það nístir hjarta manns,“ segir ráðherra.
Innviðir í Afganistan eru veikir eftir ríflega fjörutíu ára stríðsátök í landinu, en þar búa um 30 milljónir og hefur helmingur þeirra þurft á mannúðaraðstoð að halda svo áratugum skiptir og þriðjungur landsmanna hefur búið við hungurmörk um langa hríð.
Þá hefur straumur flóttamanna frá verið mikill undanfarin ár, eða sem nemur 400 þúsund Afgönum á ári – og það áður en talíbanar hófu stórsókn sína í ár og náðu völdum.
Á Norðurlöndunum hafa ráðamenn kallað allt starfsfólk sendiráða sinna heim, þar á meðal afganskt starfsfólk þeirra.
Ekkert sendiráðsfólk er ytra á vegum Íslands, en tíu íslenskir ríkisborgarar, þar af tvenn hjón með börn sín og einn starfsmaður Nató.
Utanríkisráðuneytið hér á landi reynir nú af fremsta megi að ná þessu fólki úr landi, en erfiðlega hefur reynst að koma því á flugvöllinn í Kabúl, vegna öngþveitis þar, hvað þá lengra.
„Við fórum vel yfir þessa stöðu og reyndum að átta okkur á þeim sviðsmyndum sem uppi eru,“ sagði Stefán Vagn Stefánsson, formaður nefndarinnar eftir fundinn.
Stefán sagði nefndina vera að afla fleiri gagna. „Þetta er að gerast mjög hratt og mikið af upplýsingum eru að koma inn á hverjum degi. Við erum líka að sjá hvernig aðrar þjóðir og önnur ríki eru að taka á þessu,“ sagði hann og kvaðst ekki geta tilgreint hvaða gögnum væri beðið eftir.
„Við erum meðal annars að rýna í kerfið hér innanlands og líta á stöðuna hjá alþjóðlegum flóttamannastofnunum. Við verðum að meta stöðuna aðeins betur áður en við leggjum tillögu til ríkisstjórnarinnar,“ sagði Stefán Vagn.