„Fyrst og fremst er maður sleginn yfir því hvernig þetta mál ber að og hvernig haldið hefur verið á því af hálfu fjárlaganefndar og Alþingis. Allt hefur það einkennst af fúski og frændhygli,“ segir Jón Þórisson, forstjóri fjölmiðlasamsteypu Torgs.

Vandræðagangur hefur orðið á framgangi ráðstöfunar 100 milljóna króna ríkisstyrks frá Alþingi eftir umsókn N4 á Akureyri um fjárstuðning. Fjárlaganefnd hefur nú falið ráðherra að útfæra greiðslurnar en ef skilyrt verður áfram að féð fari til fyrirtækja úti á landi spyr það spurninga um jafnræði.

„Það er áleitið að með þessu ráðslagi sé brotinn réttur á öðrum einkareknum miðlum. Við lítum svo á að þetta fyrirkomulag fari gegn jafnræðisreglu stjórnarskrár og gangi að auki í berhögg við fjórfrelsisákvæði EES-samningsins og sé þar með ólögmætt. Gangi þetta eftir munum við því leita réttar okkar og ég býst við að aðrir miðlar sem beittir eru þessum órétti íhugi það sama,“ segir Jón.

Fjórfrelsið vísar til frjáls flæðis vöru, fólks, þjónustu og fjármagns og er grundvöllur innri markaðar ESB og EES. Hafsteinn Dan Kristjánsson, sérfræðingur í Evrópurétti, segist ekki hafa skoðað þetta tiltekna mál en ef upp komi vafamál sé fyrsta skref að kanna lögmæti úthlutunarinnar, hvort sérstakar ríkisstyrkjareglur eigi við, hvaða skilyrði séu fyrir ríkisstuðningnum.

Jón Þórisson forstjóri Torgs.

„Ef upp koma deilur enda svona mál yfirleitt hjá ESA sem úrskurðar,“ segir Hafsteinn Dan.

Þá hefur vakið athygli að María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 sem sótti um styrkinn til fjárlaganefndar, er mágkona Stefáns Vagns Stefánssonar í meirihluta fjárlaganefndar sem þó vék ekki sæti þegar hann studdi styrkveitinguna. María Björk sagðist upptekin í gær þegar Fréttablaðið falaðist eftir viðbrögðum.

Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segist andvígur því að beinir ríkisstyrkir séu veittir til sjálfstæðra fjölmiðla.

„Ég lít svo á sem meginvandinn í þessu máli sé Ríkisútvarpið. Á meðan menn jafna ekki leikinn milli Ríkisútvarpsins og einkarekinna fjölmiðla erum við með ólíðandi stöðu,“ segir Óli Björn.

Þingmaðurinn segir að fjölmiðill sem þiggi ríkisstyrk verði þar með háður fjárveitingarvaldi þingsins.

„RÚV nýtur margvíslegra forréttinda er kemur að peningalegu umhverfi og þetta ástand hefur leitt til ríkisstyrkja sem ég er á móti. Ég vil að tekið verði á sjálfu höfuðmeininu, sem er ójöfn samkeppni sjálfstæðra einkarekinna fjölmiðla við ríkisrekinn fjölmiðil.“

Tekið skal fram að Fréttablaðið er í eigu Torgs.

Óli Björn Kárason þingmaður Sjálfstæðisflokksins.