Heilbrigðisráðherra ætlar að leggja fram frumvarp um afnám refsinga fyrir vörslu neysluskammta í febrúar. Þetta kemur fram í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar. Þar segir að lagt verði fram frumvarp um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni á þann hátt að heimila vörslu ávana- og fíkniefna sem teljast til eigin nota.

Sambærilegt frumvarp Pírata var fellt á Alþingi í vor og féllu atkvæði féllu eftir flokkslínum.

Meirihlutinn allur á móti málinu

Þingmenn meirihlutans greiddu ýmist atkvæði gegn málinu, sátu hjá eða greiddu ekki atkvæði. Flestir sem tóku til máls um atkvæðagreiðsluna kváðust fylgjandi markmiði frumvarpsins. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir sagðist styðja markmið frumvarpsins en það væri ekki fullþroskað. Hún myndi halda áfram að vinna að markmiðum frumvarpsins í sínu ráðuneyti.

„Mér finnst málflutningur stjórnarmeirihlutans sem hér hefur talað einkennast af fyrirslætti á fyrirslátt ofan," sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir um atkvæðagreiðsluna.

Mikil reiði blossaði upp á samfélagsmiðlum vegna afgreiðslu málsins og töluðu margir um dýrkeypt mistök meirihlutans.

Ungir sjálfstæðismenn reiðir við sitt fólk

Ungliðahreyfingar flokkanna birtu yfirlýsingar og fóru ungir sjálfstæðismenn þar fremstir í flokki, sögðust harma aðgerðarleysi Sjálfstæðisflokksins enda hafi málefnið verið hluti af stefnu SUS og flokksins í fjöldamörg ár.

„Stríðið gegn fíkniefnum er löngu tapað. Fælingarmáttur refsistefnunnar er minniháttar og afleiðingin er sú að fólk sem glímir við fíknisjúkdóma fær síður þá hjálp sem það nauðsynlega þarf. Mál sem þessi eiga að vera heilbrigðismál, ekki sakamál,“ segir í tilkynningu frá SUS.

Stuttu eftir að mál Pírata var fellt bárust fregnir af fyrirætlan Svandísar Svarvarsdóttur, heilbrigðisráðherra. Þingmenn Pírata brugðust ókvæða við þeim fréttum. Björn Leví Gunnarsson velti því fyrir sér í svari við grein Kolbeins Óttarssonar Proppé, um málið, hvers vegna frumvarpið hafi verið slegið af borðinu ef ráðherra ætli svo að leggja fram sama mál.

„Fokkaðu þér. Við vildum atkvæðagreiðslu um málið þar sem þingmenn geta beitt sannfæringu sinni. Þessi útúrsnúningur þinn er jafn ömurlegur og þessi málflutningur þinn í málinu,“ skrifaði Björn Leví í svari við greininni.