Héraðssaksóknari hefur ákært fjárfestinn Bjarna Ákason fyrir meiriháttar brot gegn skattalögum með því að hafa stungið um 44 milljónum króna undan skatti.

Forsaga málsins er löng. Bjarna er gefið að sök að hafa staðið skil á efnislega röngum skattframtölum gjaldárin 2008, 2010 og 2011 vegna tekna sem var aflað árin á undan. Í ákæru er haldið fram að Bjarni hafi tekið út fjárhæðir sem nemur samtals 115 milljónum króna á þessum árum úr tveimur eignarhaldsfélögum og hafi hann látið undir höfuð leggjast að gefa tekjurnar upp til skatts. Þannig hafi hann komist hjá því að greiða tæpar 44 milljónir króna í skatt.

Að sögn Bjarna má rekja málið til þess að hann hafi haft frumkvæði af því að leiðrétta skattframtöl sín og fyrirtækja sinna á sínum tíma. „Það liggur fyrir að endurskoðendur mínir gerðu mistök á sínum tíma. Ég hafði sjálfur frumkvæði að því að óska eftir leiðréttingu framtalanna á sínum tíma,“ segir hann.

Niðurstaða skattsins hafi verið sú að heimila leiðréttingu á skattframtölum eignarhaldsfélaganna en ekki á hans persónulega framtali. „Í framhaldinu var ég dæmdur til þess að greiða fjármagnstekjuskatt af upphæðinni sem ég og gerði,“ segir Bjarni. Hann hafi þar með talið málinu lokið en það var öðru nær.

„Síðan þá hefur þessi vitleysa gengið fram og til baka. Síðan var úr­skurðað um að ég þyrfti að borga tekjuskatt af upphæðinni og það gerði ég. Ég hef síðan tvisvar fengið endurgreitt frá Ríkisskattstjóra með leiðréttingum eftir úrskurð yfirskattanefndar,“ segir Bjarni sem er afar ósáttur við „norna­veiðarnar“ sem síðan hafi haldið áfram. „Þessi ákæra héraðssaksóknara er því í raun tilraun til þess að dæma mig í þriðja sinn fyrir mál sem ég hafði frumkvæði að að tilkynna sjálfur. Það á ekki að þekkjast í réttar­ríkjum.“

Hann gagnrýnir einnig harðlega hvað málið hefur velkst lengi um í kerfinu. „Ég var 47 ára gamall þegar ég hóf þetta mál og er að verða sextugur núna. Samt er málinu hvergi nærri lokið,“ segir Bjarni. Hann segist ætla að verjast af hörku í réttarsal og síðan muni hann kæra málsmeðferðina. „Ég ætla að fara í skaðabótamál. Ég fer með þetta mál alla leið.“