Yariv Le­ven, for­seti ísraelska þingsins, Knes­set, greindi frá því í dag að von væri á at­kvæða­greiðslu til að stað­festa nýja ríkis­stjórn í landinu en Le­ven vildi þó lítið gefa upp um tíma­setningu hennar og hve­nær ný ríkis­stjórn gæti tekið við. Slíkt yrði gefið út síðar en seinasti dagurinn til þess er 14. júní.

Greint var frá því í síðustu viku að átta flokkar hefðu náð saman til að mynda ríkis­stjórn en Yair Lapid, leið­togi stjórnar­and­stöðu­flokksins Yesh Atid, hafði fengið stjórnar­myndunar­um­boð frá for­seta landsins, Reu­ven Rivlin, eftir að Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, tókst ekki að mynda stjórn.

Eftir að Naftali Bennett, leið­togi þjóð­ernis­flokksins Yamina, til­kynnti að hann myndi vinna með Lapid hófust strangar stjórnar­myndunar­við­ræður. Mikið var um mála­miðlanir, enda eiga flokkarnir fátt annað sam­eigin­legt en að vilja koma Netanyahu frá völdum, en að lokum til­kynnti Lapid að þeim hefði tekist að mynda nýja stjórn.

Netanyahu ósáttur við nýja stjórn

Miklar vanga­veltur höfðu verið uppi um hvort Le­ven myndi fresta at­kvæða­greiðslunni og gæfi þar með flokks­bróður sínum, Benja­min Netanyahu, for­sætis­ráð­herra Ísrael, svig­rúm til að sann­færa leið­toga flokkanna í væntan­legri ríkis­stjórn um að víkja frá sam­starfinu.

Í gær gaf Netanyahu það síðan út að um væri að ræða eitt stærsta kosninga­svindl í „sögu lýð­ræðisins.“ Nokkrum klukku­stundum síðar kallaði Bennett eftir því að Netanyahu myndi taka úr­slitunum og ekki skilja eftir sig sviðna jörð. Þá hafa aðrir leið­togar stigið fram og kallað eftir því að Netanyahu virði úr­slitin.

Möguleg sátt eftir tveggja ára krísu

Verði ríkis­stjórnin sam­þykkt af þinginu mun Bennett gegna em­bætti for­sætis­ráð­herra fyrstu tvö árin og Lapid næstu tvö þar á eftir. Aðrir flokkar sem Yesh Atid og Yamina munu vinna með ef sam­starfið gengur eftir eru Blá­hvíta-banda­lagið, Yis­rael Beyt­enu, New Hope, Verka­manna­flokkurinn, Meretz og Araba­flokkurinn Ra’am.

Ný ríkis­stjórn myndi binda enda, alla vega tíma­bundið, á þá pólitísku krísu sem hefur staðið yfir í Ísrael síðustu ár. Kosningarnar síðast­liðinn mars voru þær fjórðu á innan við tveimur árum en illa hefur gengið að mynda starf­hæfa ríkis­stjórn, ekki síst þar sem margir hafa neitað að vinna með Netanyahu en hann á nú yfir höfði sér ákærur fyrir spillingu.