Sólveig Anna Jónsdóttir, sem var endurkjörin formaður Eflingar á mánudaginn eftir að hafa sagt af sér úr sama embætti í fyrra, segir að þrátt fyrir að mikill árangur hafi náðst í kjarabaráttu tiltekinna hópa í síðustu launalotu sé baráttunni langt því frá lokið. Í samtali við Fréttablaðið lýsti hún markmiðum og áhersluefnum sem hún hyggst einbeita sér að með endurnýjuðu umboði sínu á formannsstól verkalýðsfélagsins.
„Við náðum glæstum árangri hjá borginni, þar sem kjarafræðinefnd hefur reiknað út að engir fengu hærri prósentuhækkanir í síðustu kjaralotu en Eflingarfólk í borginni. Þetta skilaði sér svo áfram. Við náðum sama árangri hjá ríkinu fyrir fólkið okkar þar, hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga og svo hjá fyrirtækjum í velferðarþjónustu, en þar er gríðarstór hópur kvenna, fyrst og fremst Eflingarkvenna, sem vinna við umönnun aldraðra.“
Sólveig varar við því að talað sé á yfirborðskenndan máta um launamál hjá starfsmönnum hins opinbera. Talsverð hækkun mældist í launum þeirra á síðasta ári en Sólveig Anna segir það ekki segja alla söguna.
„Auðvitað er stór hópur fólks sem starfar hjá hinu opinbera með mjög há laun. En staðreyndin er sú – og þetta ætti öllum ætti að vera ljóst sem hafa minnsta áhuga á að setja sig inn í launakjör vinnandi fólks – að það er að sama skapi gríðarstór hópur sem starfar við umönnun, í leikskólum og í umönnunarkerfinu, sem er á mjög lágum launum þrátt fyrir þann mikla árangur sem náðist hjá okkur. Það að einhver hópur fólks í þessu samfélagi, sama hvort það er á almennum markaði eða hjá hinu opinbera, sé með mjög rífleg laun fyrir sína unnu vinnu, þá á það alls ekki við alla. Staðreyndin er sú að við erum með gríðarstóran hóp af fólki sem nær einfaldlega ekki endum saman.“
„Við erum með fullt af fólki á höfuðborgarsvæðinu sem lifir á einum launatékka til hins næsta og eru einhvers konar fangar þeirrar tilveru, nær aldrei að leggja fyrir, nær aldrei að strjúka um frjálst höfuð vegna fjárhagsáverka. Þetta fólk þarf ekki bara að lifa undir þessari grimmilegu launastefnu heldur þarf það líka að búa á húsnæðismarkaði þar sem meira að segja blokkaríbúð í úthverfi er orðin að fjarlægum draumi fyrir mikið af verka- og láglaunafólki.“
Meira að segja blokkaríbúð í úthverfi er orðin að fjarlægum draumi fyrir mikið af verka- og láglaunafólki
Sólveig Anna segir að í stéttskiptu samfélagi þýði ekki að skoða vinnumarkaðinn út frá einu sjónarhorni heldur þurfi að skoða hann heildstætt með gagnrýnum hætti.
„Það þarf að sjá hverjir þurfa alvöru launahækkanir og hverjir hafa það einfaldlega afskaplega gott. Staðreyndin er líka sú að það er vinna verka- og láglaunafólks sem knýr hjól atvinnulífsins, skapar hagvöxtinn og það hlýtur að vera ekkert annað en eðlileg sanngirniskrafa að þetta fólk fái hlut af þeim arði sem vinna þeirra skapar.“
Þá segist Sólveig vilja berjast gegn launaþjófnaði, sem hún segir að sé nú talinn algjörlega sjálfsagður á íslenskum vinnumarkaði gagnvart vissum hópum sem hér starfa.
„Í stóru herferðinni okkar til að fá stjórnvöld til að uppfylla loforðið sem okkur var gefið í lífskjaraviðræðunum um að viðurlög yrðu lögð við launaþjófnaði þá beindum við sjónum okkar mikið að þeim aðstæðum sem bíða allt of margra sem hingað koma til að vinna. Það er að stórum hluta aðflutt verkafólk sem er fórnarlömb launaþjófnaðar, fórnarlömb vanvirðandi hegðunar og svo líka auðvitað fórnarlömb þessa sjúka húsnæðiskerfis sem hér hefur fengið að vaxa og dafna algjörlega óáreitt.“
Sólveig segist leggja áherslu á að samstarf hennar við félagsfólk Eflingar sé „lýðræðislegt, upplýst og að [þau] séu tilbúin til að stíga fram sameinuð.“
„Ég vissi það áður en ég tók við formennsku að sundruð náum við ekki árangri, en förum við fram sterk og sameinuð getum við sannarlega unnið mikla sigra.“