Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, hefur sett saman teymi sem undirbýr nauðsynlegar aðgerðir til að liðka fyrir komu erlendra sérfræðinga til landsins.

Samkvæmt Samtökum iðnaðarins þurfa fyrirtæki í hugverkaiðnaði að ráða níu þúsund sérfræðinga á næstu fimm árum ef þau eiga að geta nýtt vaxtartækifæri sín. Nokkur stór fyrirtæki eru þegar farin að horfa út fyrir landsteinana vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að ráða fólk hér að undanförnu.

Áslaug Arna telur mikilvægt að bregðast hratt við þeirri stöðu sem upp er komin.

„Þetta er umfangsmikið verkefni sem kallar á samvinnu ráðuneyta og undirstofnana. Við þurfum að bæta þjónustu, hraða afgreiðslu og auka upplýsingagjöf. Ég horfi til þess að hér verði opnað fyrir hraðleið og skilgreiningar rýmkaðar.“

„Við eigum í alþjóðlegri samkeppni um besta fólkið og Ísland verður að vera eftirsóknarverður valkostur.“

Áslaug vonast til að geta tilkynnt í hverju tillögurnar felast strax í júní.

„Þetta verða aðgerðir sem snúa að því að Ísland verði fyrsti valkostur fyrirtækja. Bæði varðandi skattaumhverfi vegna rannsókna og þróunar en ekki síður til að opna Ísland fyrir þeim sem hingað vilja koma.“

Að mati Áslaugar felst lykill að bættum lífsgæðum í því að hugvit verði stærsta útflutningsgreinin.

„Ef það á að raungerast þurfum við fleira fólk. Við eigum í alþjóðlegri samkeppni um besta fólkið og Ísland verður að vera eftirsóknarverður valkostur.“