Boðað hefur verið samstöðumótmæla vegna George Floyd á Austurvelli á morgun, miðvikudaginn 3. júní klukkan 16:30.

„Nú er komið nóg! Þessi mótmæli snúast um samstöðu. Við getum ekki verið þögul,“ segir í tilkynningu frá skipuleggjendum.

Hópurinn sem skipuleggur mótmælin samanstendur af Bandaríkjamönnum hérlendis sem segjast ósáttir við hið rótgróna kerfi sem byggir á yfirburðum hvítra þar sem svart fólk er ítrekað myrt.

Tími til að hlusta

„Við sýnum hér með samstöðu með svörtum bræðrum okkar og systrum í Bandaríkjunum og alls staðar þar sem yfirburðir hvítra hafa verið normalíseraðir,“ segir skipuleggjendur.

„Eins og Dr. King komst að orði ógnar ranglæti á einum stað réttlæti alls staðar. George Floyd var ekki myrtur á Íslandi en dauði hans varpar ljósi á óréttlæti sem ekki má líðast. Svona á ekki að eiga sér stað og við komum þess vegna saman og fordæmum allt óréttlæti af þessu tagi. Á hverjum degi bætist nafn á lista yfir svart fólk sem hefur þolað ofbeldi af hálfu lögreglunnar. Það er kominn tími til að hlusta á þær raddir sem ekki hefur verið hlýtt á fram að þessu.“

Hér má finna viðburðarsíðuna fyrir mótmælin.

Ekki lengur hægt að líta undan

Geoge Floyd lést á mánudaginn í síðustu viku eftir að lögregluþjónn kraup á hálsi hans og þrengdi að öndunarvegi hans. Lögregluþjóninn hefur nú verið handtekinn og ákærður fyrir morð og þremur lögregluþjónum hefur verið sagt upp störfum. Málið hefur vakið mikla reiði vestanhafs og tendrað baráttuandann í fólki víða um Bandaríkin.

Mótmælendur krefjast réttlætis og mótmæla rótgrónu kerfi sem byggt er á kynþáttamisrétti. Ljósi hefur verið varpað á lögregluofbeldi gegn svörtu fólki og geta nú Bandaríkjamenn ekki lengur litið undan. Óeirðir hafa brotist út víða og hefur Þjóðvarðarliðið verið ræst út í mörgum fylkjum.

Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hótað að senda út herinn til að bæla niður óeirðirnar en þónokkrir hafa bent á að ofbeldið á götunum hafi aukist eftir að þjóðvarðarliðið var ræst út til að mæta mótmælendum.