Foreldrar barna í Kelduskóla Korpu efna til mótmæla í dag. Síðdegis fer fram atkvæðagreiðsla í skóla- og frístundaráði um tillögu meirihlutans um að loka skólanum. Með henni munu börn í Víkurhverfi fara í aðra skóla í nálægu hverfi. Milli kl. 7.45 og 8.30 hyggjast foreldrarnir tefja umferð úr Víkurhverfi yfir í Grafarvog. Snýst gagnrýni foreldranna að hluta um samgöngur, sem borgaryfirvöld hafa heitið að bæta.

„Með þessu erum við að sýna hvernig umferðin verður þegar við þurfum við keyra börnin í skólann úr hverfinu,“ segir Sævar Reykjalín, formaður foreldrafélagsins. Nemendur eru heldur ekki sáttir við lokunina. Í bréfi til borgarstjóra frá nemendum í 7. bekk skólans, sem dagsett er í gær, segir að ekki sé sanngjarnt að loka skólanum vegna þess hve fá börnin eru.

Sófus Máni Bender sat fundi skólaráðs fyrir hönd nemenda á síðasta skólaári þar sem ræddar voru hugmyndir um lokunina. Ekkert samráð hafi verið haft við nemendur.

„Það var lítið talað við nemendur þrátt fyrir stefnu borgarinnar að hlusta á okkar raddir.“ segir Sófus Máni. Hann hefur áhyggjur af stöðunni og hvetur borgaryfirvöld til að endurskoða afstöðuna. „Krakkarnir í Staðahverfi eru búnir að skapa sér stöðu, öryggi og þægindi í hverfisskólanum. Með því að flytja þau í aðra skóla er verið að kalla fram kvíða og skapa þeim óöryggi.“