Á fimmtudag verður haldinn samstöðufundur á Austurvelli vegna árásarinnar í Osló síðustu helgi þar sem tveir létust og tugir særðust í skotárás fyrir utan hinsegin bar. Fundurinn er skipulagður af Hinseginleikanum.
„Þetta er hugmynd sem kviknaði í gærkvöldi. Ég og María [innsk. blm. Rut Kristinsdóttir], og allt hinsegin samfélagið, höfum verið hálflömuð eftir þessar fréttir frá Ósló og Hjalti Vigfússon, vinur okkar, hefur verið í sama pakka og við áttum svo gott samtal í gær þar sem við ákváðum að gera eitthvað. Það er eitt að sitja og vera sorgmæddur yfir fréttunum og láta þær buga sig, en svo er annað að láta þetta efla sig og samstöðuna enn frekar,“ segir Ingileif Friðriksdóttir, skipuleggjandi og ein stofnenda Hinseginleikans, og að þaðan hafi hugmyndin komið.
Í lýsingu viðburðarins kemur fram að fundurinn hefjist á mínútuþögn og svo taki við ræður og söngur.
Eftir þunga síðustu daga langar okkur að snúa þessari sorg í eitthvað gott
Að loknum ræðum verður einnig opinn míkrófónn þar sem hver sem er getur stigið á svið og látið í sér heyra, með þeim hætti sem þau vilja. Ingileif segir að ástæðan fyrir því sé að þótt svo að hún og eiginkona hennar, María Rut Kristinsdóttir, hafi stofnað saman Hinseginleikann þá sé hinseginleiki allt hinsegin samfélagið og því vilji þær gefa öllum tækifæri á að tjá sig.
„Hinseginleikinn er óháð framtak okkar og okkur hefur aldrei langað að vera eigendur þessa hugtaks. Hinseginleikinn snertir allt hinsegin samfélagið og okkur finnst allt það samfélag vera hinseginleikinn. Við viljum að sem flestar raddir fái að heyrast,“ segir Ingileif og að hún vonist til þess að margir muni nýta það tækifæri.
„Eftir þunga síðustu daga langar okkur að snúa þessari sorg í eitthvað gott. Maður sér að hinsegin samfélagið víða er sorgmætt og lamað og það er eitthvað sem má ekki verða ofan á. Við megum ekki láta hatrið gera okkur hrædd og koma í veg fyrir að við komum saman. Sýnileikinn er sterkasta vopnið gegn hatrinu,“ segir Ingileif.
Vilja meiri fræðslu
Krafa fundarins er sú að hinseginfræðsla verði aukin á öllum skólastigum og að á fundum bæjar- og borgarráða um allt land muni koma fram tillaga um aukin fjárútlát til að sinna slíkri fræðslu. Ingileif segir aðeins örfá sveitarfélög með gilda samstarfssamninga við Samtökin ´78 um fræðslu en að hennar mati ættu öll sveitarfélög að vera með slíka samninga því besta vörnin gegn fordómum sé aukin fræðsla.
„Við María höfum farið víða að sinna fræðslu líka og oft er um að ræða einkaframtak einhvers kennara og þannig vantar einhverjar heildræna sýn, um allt land. Sérstaklega síðasta árið höfum við séð rosalegt bakslag. Við eigum erfitt með að trúa því og fólk á erfitt með að trúa því þegar við tölum um það, sérstaklega kannski fólk sem tilheyrir ekki hinsegin samfélaginu. Staðan er því miður sú að það er rosalegur uppgangur hatursorðræðu, ekki bara í löndunum í kringum okkur, heldur líka á Íslandi,“ segir Ingileif og nefnir sem dæmi viðtal við ungmenni fyrir stuttu síðan á RÚV þar sem þau greindu frá miklu áreiti vegna þess að þau eru hinsegin og ákvörðun Sundsambands Íslands að kjósa með því á alþjóðaþingi að banna trans konum að keppa á afreksstigi.
Við erum farin að sjá bakslagið hér líka
Ingileif segir þetta beina afleiðingu aukinnar hatursorðræðu á alþjóðavísu og popúlisma.
„Á þessum tímapunkti er þetta ekki eitthvað sem er bara langt í burtu og getur ekki gerst hér. Við erum farin að sjá bakslagið hér líka og það er svo ótrúlega auðvelt þegar svona öfgaöfl eru komin af stað að taka réttindin af okkur. Áður en það gerist viljum við byrja að spyrna við því og standa saman,“ segir hún.
Ingileif segir að í þeirri fræðslu sem hún hefur sinnt á vegum Hinseginleikans hafi hún merkt aukna fordóma og fáfræði í skólum og meðal ungmenna og barna á hinseginleika og hvaða afleiðingar fordómar og hatursorðæðra getur haft. Þá segist hún einnig hafa áhyggjur af því sem börn og ungmenni sjá á samfélagsmiðlum þegar því mætir svo ekki fræðsla í skólum.
„Þetta hefur bein áhrif á líf og líðan þessara einstaklinga og getur gert það að verkum að þau sjá varla út úr myrkrinu sem þessu getur fylgt, að vera fyrir endalausu aðkasti og áreiti. Þetta er upp á líf og dauða og við viljum fyrir alla muni sporna gegn þessari þróun og standa saman. En líka vera glöð og standa saman og sýna hvað þetta er fallegt, þetta samfélag okkar.“
Dagskrá fundarins:
- Ingileif Friðriksdóttir, fundarstjóri og stofnandi Hinseginleikans, opnar fundinn. Mínútuþögn fyrir Osló.
- Páll Óskar, brautryðjandi og gleðigjafi, setur tóninn
- Arna Magnea Danks, grunnskólakennari og aktivisti, heldur ræðu og flytur ljóð
- María Rut Kristinsdóttir stofnandi Hinseginleikans og fyrrverandi varaformaður Samtakana ‘78 og fræðari hjá Samtökunum heldur ræðu og lýsir kröfu fundarins.
- Páll Óskar flytur lag
- Opinn míkrafónn þar sem hver sem vill láta í sér heyra getur talað, öskrað, sungið eða tjáð sig á þann hátt sem viðkomandi kýs. Með samstöðuna að vopni.
Sameinumst gegn hatrinu með ást, gleði og baráttuvilja. Mætum og sýnum samstöðu og tökum öll sem vilja vernda og bæta okkar frjálsa samfélag með okkur.