Boðað hefur verið til samstöðufundar með egypsku Kehdr-fjölskyldunni á Austurvelli á morgun en til stendur að vísa henni úr landi á miðvikudag.

Samtökin No Boarders Iceland efna til fundarins en í viðburðalýsingu á Facebook segja skipuleggjendur að með þessu vilji þeir mótmæla fyrirhugaðri brottvísun fjölskyldunnar.

Mikil umræða hefur verið um mál hennar undanfarna daga en hjónin Doaa og Ibrahim komu hingað til lands í ágúst 2018 ásamt fjórum börnum sínum til að sækjast eftir alþjóðlegri vernd.

Til stóð að vísa þeim úr landi í febrúar

Dooa og Ibrahim segjast hafa orðið fyrir ofsóknum í Egyptalandi vegna þátttöku Ibrahim í stjórnmálastarfi. Útlendingastofnun synjaði þeim um vernd í lok júlí í fyrra og mat að fjölskyldan væri örugg í Egyptalandi.

Var sú ákvörðun staðfest af kærunefnd útlendingamála rúmum 15 mánuðum síðar en til stóð að fjölskyldunni yrði vísað úr landi í febrúar. Tafðist það vegna heimsfaraldurs kórónaveiru.

Magnús D. Norðdahl, lögmaður fjölskyldunnar, hefur áður sagt þau vera ósammála niðurstöðunni og að þau óttist mjög að verða bæði handtekin í Egyptalandi. Þá hafa á tólfta þúsund manns sett nafn sitt við undirskriftalista þar sem brottvísun fjölskyldunnar er mótmælt.

Á þeim tveimur árum sem fjölskyldan hefur dvalið á Íslandi hafa börnin, sem eru á aldrinum 5 til 12 ára, gengið hér í leikskóla og grunnskóla.

Magnús greindi frá því í samtali við Fréttablaðið fyrr í dag að fjölskyldan væri bæði hvekkt og hrædd vegna fyrirhugaðrar brottvísunar en foreldrarnir voru látnir undirgangast skimun vegna COVID-19 í dag sem hluta af undirbúningi hennar.

Sagði Magnús þau enn trúa því að ekkert verði af henni á miðvikudag.