Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra mun funda með íbúum Grindavíkur á morgun, fimmtudaginn 19. maí, vegna aukinnar skjálftavirkni á Reykjanesinu og kvikusöfnunar.

Grindavíkurbær hefur boðað til fundarins í íþróttahúsinu annað kvöld klukkan 19:30. Honum verður streymt og í lokin verður samantekt á pólsku.

Einar Hjörleifsson, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að líklega sé kvika á fjögurra til fimm kílómetra dýpi undir Þorbirni. Innskot (silla) er að myndast en það gerðist einnig þrisvar sinnum árið 2020. 

„Við sjáum í sjálfu sér ekki að kvikan sé að rísa neitt hratt frá þessu dýpi, hún liggur bara þarna. Við reynum að fylgjast vel með og vakta svæðið.“

Von er á nýjum gervihnattamyndum í næstu viku en þá verður hægt að meta betur hver uppfærslan er á svæðinu. Vefmyndavélum og öðrum mælitækjum verður sömuleiðis komið fyrir á svæðinu.

„Við þurfum að fylgjast sérstaklega vel með honum næstu árin og vera undir það búin að sjá annað eldgos.“

Virknin er við Þorbjörn.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þurfum að vera undirbúin fyrir annað eldgos

Óvissustig almannavarna hefur verið í gildi frá sunnudeginum og fluglitakóðinn færður á gult vegna skjálftavirkni á Reykjanesskaga við eldstöðvakerfi Reykjaness/Svartsengis.

Vísindaráð almannavarna fundaði í gær um virknina og hreyfingarnar sem hafa mælst á svæðinu. Jarðskjálftavirkni hefur verið yfir meðallagi með 3800 skjálftum á svæðinu við Þorbjörn undanfarna viku.

„Í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli var vakin athygli á því að skjálfti upp á 6,5 gæti orðið í Brennisteinsfjöllum sem hefði veruleg áhrif á höfuðborgarsvæðinu.  Sú hætta er enn fyrir hendi,“ segir á vef Veðurstofunnar.

Einar segir að svipuð virkni og landris hafi sést áður við Þorbjörn áður en virknin færðist yfir á Fagradalsfjall og gos hófst í Geldingadölum.

„Það er erfitt að meta hvort kvika fari upp á yfirborðið eða ekki. Það sem við sjáum og er augljóst er að Reykjanesskaginn er vaknaður til lífsins aftur. Við þurfum að fylgjast sérstaklega vel með honum næstu árin og vera undir það búin að sjá annað eldgos.“

Vísindafólk mun meta hvort mælanet á svæðinu sé ásættanlegt og koma með tillögur að úrbótum ef þurfa þykir.