Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur boðað til blaða­manna­fundar klukkan 14 í dag þar sem fjallað verður um mann­drápið í Rauða­gerði í síðasta mánuði. Farið verður yfir rann­sókn málsins á fundinum.

Í ljósi þeirra sam­komu­tak­markanna sem tóku gildi fyrr í vikunni verður um fjar­fund að ræða.

Halla Berg­þóra Björns­dóttir lög­reglu­stjóri á höfuð­borgar­svæðinu, Margeir Sveins­son, yfir­lög­reglu­þjónn hjá mið­lægri rann­sóknar­deild, og Hulda Elsa Björg­vins­dóttir, sviðs­stjóri á­kæru­sviðs, verða á fundinum.

Armando Beqirai, karlmaður á fertugsaldri, var myrtur fyrir utan heimili sitt í Rauðagerði aðfaranótt 14. febrúar síðastliðinn. Hann var skotinn níu sinnum í höfuð og bol með skambyssu með hljóðdeyfi.

Lögreglan hefur haft umrædda skammbyssu í vörslu sinni í nokkurn tíma og hafa bráðabirgðaniðurstöður sérfræðinga leitt í ljós að það sé líklegast morðvopnið.

Fjöldi einstaklinga er nú með réttarstöðu sakbornings í tengslum við málið en lögregla hefur rætt við tugi vitna og farið yfir fjöldan allan af gögnum fyrir rannsókn málsins.