Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar í Safnahúsinu við Hverfisgötu klukkan 14 í dag. Munu ráðherrar þar kynna framtíðarfyrirkomulag skimunar á landamærum.

Þórólfur Guðnason, sóttvarnarlæknir, skilaði inn minnisblaði til Svandísar Svavarsóttur, heilbrigðisráðherra, á þriðjudag þar sem hann leggur fram níu útfærslur sem snúa að aðgerðum á landamærunum.

Veltir hann þar upp kostum þeirra og göllum í stað þess að mæla með einni á­kveðinni leið eins og hann hefur gert hingað til. Kemur það í hlut ráðherra að velja hvaða leið verði farin í framhaldinu.

Telur áhrifaríkast að senda alla tvisvar í sýnatöku

Yfir 90 þúsund sýni hafa verið tekin við landamærin frá því að skimun hófst þar fyrir COVID-19 þann 15. júní síðastliðinn. Sem stendur þurfa allir sem koma til landsins ýmist að vera skimaðir eða fara í tveggja vikna sóttkví fyrir utan farþega frá Danmörku, Noregi, Finnlandi, Þýskalandi, Færeyjum og Grænlandi.

Þurfa íslenskir ríkisborgarar og þeir sem búa á Íslandi að fara í tvær sýnatökur ef skimun verður fyrir valinu; þá fyrri á landamærum við komu og þá síðari á vegum heilsugæslu 4 til 6 dögum síðar og gæta heimkomusmitgátar dagana á milli.

Hið sama á við um farþega sem koma frá áhættusvæðum og ætla að dvelja á Íslandi í 10 daga eða lengur.

Sjálfur hefur Þórólfur sagt að hann telji að áhrifaríkasta leiðin til að lágmarka áhættuna á því að veiran berist hingað til lands sé að öllum farþegum verði gert að fara í tvöfalda sýnatöku með sóttkví á milli. Þá myndi fjöldi ferðamanna hins vegar takmarkast af skimunargetu.