„Þetta er mikilvægt skref, sem undirstrikar að framkvæmdanefndin sem var skipuð á síðasta ári hefur unnið gott og mikilvægt starf. Nefndin er búin að leggja grunn að verkefninu, hefur fundað með mér, ráðherrum ríkisstjórnarinnar og nú borgarráði. Þau eru að funda með sérstökum ráðgjafarhópi allra hagsmunaaðila, íþróttafélaganna í Dalnum og sérsamböndunum á næstunni til þess að fá viðbrögð við drögunum að uppleggi þessa verkefnis,“ segir Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, spurður út í tíðindi af nýrri þjóðarhöll.

Borgarráð samþykkti í vikunni að veita borgarstjóra umboð til að ganga til samninga við ríkið um verkefnið, stofnkostnað og rekstur á þjóðarhöll í Laugardal. Í bókuninni kemur fram að borgarráð hafi fengið kynningu á starfi framkvæmdanefndar um þjóðarhöll og að borgarstjóri fái heimild til að hefja viðræður við ríkið.

„Það er samráð um þessar hugmyndir sem liggja fyrir, en það er líka ljóst að ef þessi metnaðarfulla tímaáætlun á að standast sem er miðað við, þá þurfa ríki og borg að ná samkomulagi um skiptingu stofnkostnaðar og rekstrarkostnaðar til framtíðar. Það er verkefnið sem er að koma inn á okkar borð,“ segir Dagur sem segir að horft sé til að ný höll verði tilbúin árið 2025.

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Framsóknarflokks, Pírata og Viðreisnar lýstu yfir að þetta væri fagnaðarerindi í bókun og töluðu um að þetta myndi stórbæta aðstöðu barna og ungmenna í Laugardal ásamt því að vera lyftistöng fyrir aðstöðu landsliða. Þá auki þetta samkeppnishæfi borgarinnar á alþjóðavettvangi og því sé mikilvægt að ná samningum við ríkið sem fyrst.

„Leiðarljós borgarinnar í þessu er að skapa framúrskarandi aðstæður fyrir börn og unglinga í Laugardalnum ásamt því að vera þjóðarleikvangur í íþróttum. Þetta er hugsað til lengri tíma,“ segir Dagur.