„Ég tel að þetta hafi verið mal­bikinu að kenna,“ segir Þor­gerður Guð­munds­dóttir, stjórnar­með­limur Snigla, um bana­slys sem átti sér stað á Vestur­lands­vegi á Kjalar­nesi í gær. Bif­hjól og hús­bíll lentu í á­rekstri með þeim af­leiðingum að tvö létu lífið og einn er á spítala. Slysið átti sér stað á vegar­kafla sem hafði verið varað við að væri hættu­legur.

„Ég fór þarna upp eftir í gær­kvöldi til að kanna að­stæður og bara að stíga á mal­bikið í venju­legum skóm er flug­hált,“ segir Þor­gerður og bætir við að á­standið yrði mun verra þegar keyrt er á 40 til 60 kíló­metra hraða.

Sam­spil ó­líkra þátta

Pétur Matthías­­son, upp­­­lýsinga­full­­trúi Vega­­gerðarinnar, sagði í sam­tali við Frétta­blaðið að margir sam­vinnandi þættir hafi spilað saman í slysinu. Meðal annars að­stæður þar sem hlýtt var í veðri og mikil rigning, þannig skapist að­stæður sem geri veginn hálli en ella.

Þegar Þor­gerði bar að garði í gær­kvöldi var vegurinn hins vegar þurr en samt hættu­lega háll.

Búin að fá nóg

„Í ljósi þessa at­burðar sem kostaði manns­líf, erum við mótor­hjóla­fólk búin að fá nóg,“ segir Þor­gerður. Hún segist ekki vita hvort fórnar­lömbin væru með­limir Sniglana en að það skipti ekki máli. „Hvort sem þau eru í sniglunum eða ekki þá er mótor­hjóla­sam­fé­lagið er ein heild.“

Sniglar hafa því boðað til mót­mæla fyrir framan Vega­gerðina á morgun klukkan 14:00. „Við viljum að vega­gerðin bæti þessa vegi, ekki bara þarna heldur alls staðar þar sem er hætta á ferðinni.“ Þor­gerður bendir einnig á að á síðu Vega­gerðarinnar komi fram að stofnunin tryggi öryggi á vegum. „Þetta er ekki öryggi.“

Sniglar mótmæla hættulegum vegum Vegagerðarinnar eftir að banaslys varð á Vesturlandsvegi í gær.
Fréttablaðið/Ernir

Ótal á­bendingar án árangurs

Bif­hjóla­sam­fé­lagið hafi þar að auki marg­sinnis vakið at­hygli á hættu­legum vegar­köflum á landinu þar sem vegir séu hættu­lega hálir í bestu að­stæðum. „Þetta er búið að vera svona í mörg ár og búið að senda ótal á­bendingar um þetta án þess að nokkuð hafi verið að­hafst.“ Þvert á móti haldi Vega­gerðin á­fram að leggja hættu­lega vegi.

Al­ræmdir vegar­kaflar liggja meðal annars á Bú­staða­vegi, við Árbæ, Gullin­brú, hjá Ikea, fyrir ofan Litlu kaffi­stofuna og á fleiri stöðum. Þor­gerður telur að það hljóti að vera sparnaðar­ráð hjá Vega­gerðinni að halda upp­teknum hætti á­fram en hún hefur ekki fengið stað­festingu þess enn. „Vonandi fáum við ein­hver svör á morgun.“


Vilja ekki vera næst

Mót­mælin verða þögul og til þess gerð að sýna sam­stöðu. „Með okkar dýpstu virðingu við að­stand­endur, þá eigum við öll fjöl­skyldu og vini, við viljum ekki verða næst, og stærsta ferða­helgi ársins er fram undan.“

Á­huga­samir eru hvattir til að mæta og sýna sam­stöðu hvort sem um er að ræða fólk á bif­hjólum, bílum eða fót­gangandi.

,,Við viljum ekki vera næst."