Halla Bergþóra Björnsdóttir lögreglustjóri á Höfuðborgarsvæðinu mun mæta fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis á morgun en dómsmálaráðherra kom fyrir nefndina í morgun og svaraði spurningum nefndarmanna um samskipti sín við lögreglustjórann vegna Ásmundarsalsmálsins svonefnda. Það var Andrés Ingi Jónsson sem óskaði eftir því að ráðherra kæmi á fund nefndarinnar.

„Við vildum fá milliliðalaus svör frá Áslaugu um hvers vegna hún hafði beint samband við lögreglustjórann á aðfangadag eftir að lögregla skráði hjá sér veru ráðherra í samkvæmi í samkomuabanni. Lögreglan tilkynnti fjölmiðlum í dagbók sinni að „háttvirtur ráðherra“ hafi verið í fjölmennu samkvæmi í samkomubanni sem reyndist svo vera Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins.

Andrés Ingi Jónsson þingmaður Pírata
Mynd/Eyþór Árnason

Andrés Ingi telur að leið ráðherra til að fá upplýsingar um málið sé ekki hafið yfir vafa.

„Það er eðlilegt að vera í miklum og góðum samskiptum við forstöðumenn stofnana þegar almennt kemur að stefnumótun en þegar ráðherra kemur inn í einstök mál, þá þarf að fara varlega. Ráðherra tjáði sig ekkert um þetta í desember sem var eðlilegt í ljósi hennar stöðu en þá hefði verið eðlilegt að sleppa beinum samskiptum við lögreglu, láta fyrirspurnir sínar ganga á milli embættismanna. Þetta vekur eðilega upp spurningar því hafi ráðherra viljað fræðast um verklag lögreglu hefði hún getað gert það á formlegan hátt en í stað þess hringir hún beint í lögreglustjórann á aðfangadag“, bendir Andrés Ingi á. „Þetta snýst ekki bara um hvað má og hvað má ekki heldur ásýndina, að lögreglan sé látin afskiptalaus af stjórnvöldum“.

„Þetta snýst ekki bara um hvað má og hvað má ekki heldur ásýndina, að lögreglan sé látin afskiptalaus af stjórnvöldum.“

Ás­laug hefur svarað því að hún hafi ekki verið að skipta sér af rann­sókn málsins með sím­talinu heldur hafi hún rætt upp­lýsinga­gjöf lög­reglu og persónuverndarsjónarmið.

Fram hefur komið að persónuvernd gerir ekki athugasemd við dagbókarfærslu lögreglunnar þar sem almennt njóti opinberar persónur minni friðhelgi en aðrar.