Ef borginni er annt um reisn okkar, heilsu og mannréttindi ætti hún að leggja áherslu á að beita sér fyrir mannsæmandi úrræði bæði núna og til frambúðar,“ segir í yfirlýsingu frá meðlimum Viðmóts, sem eru ný samtök um mannúðlega vímuefnastefnu á Íslandi. Þeir boða nú annað setuverkfall heimilislausra karlmanna.
Í síðustu viku fjallaði Fréttablaðið um mótmæli sem skipulögð voru af félagsmönnum Viðmóts, en heimilislausir karlmenn í samtökunum fóru í setuverkfall í neyðarskýlinu á Grandagarði 1a, sem er úrræði fyrir heimilislausa karlmenn og rekið af velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Að sögn mótmælenda voru mótmælin tvíþætt. Annars vegar vildu mennirnir að Reykjavíkurborg taki ábyrgð á því að ekkert úrræði sé opið allan daginn fyrir heimilislausa karlmenn og hins vegar að þau neyðarskýli sem séu til staðar loki ekki þegar spáð er gulri viðvörun eða hærra.
Í yfirlýsingunni segir að Viðmót fagni því að velferðarsvið Reykjavíkurborgar leggi áherslu á að finna varanlega búsetukosti fyrir einstaklinga sem glími við heimilisleysi og nýti sér neyðarskýlin í Reykjavík.
„Það leysir þó ekki þann alvarlega og knýjandi vanda sem við heimilislausir karlmenn stöndum frammi fyrir núna! Það er að koma vetur, það er orðið kalt og er staðreyndin sú að við höfum ekki í nein hús að vernda frá kl 10:00-17:00 þegar neyðarskýlin eru lokuð,“ segir í yfirlýsingunni.
Þá boði samtökin til annars setuverkfalls í neyðarskýlinu á Grandagarði 1a á morgun, 18. október klukkan tíu, þegar húsinu lokar yfir daginn.
„Við kvíðum mikið vetrinum og því að þurfa að koma okkur á milli staða í köldu og vondu veðri og getum ekki sætt okkur lengur við óbreytt ástand,“ segir í yfirlýsingunni.