Ef borginni er annt um reisn okkar, heilsu og mann­réttindi ætti hún að leggja á­herslu á að beita sér fyrir mann­sæmandi úr­ræði bæði núna og til fram­búðar,“ segir í yfir­lýsingu frá með­limum Við­móts, sem eru ný sam­tök um mann­úð­lega vímu­efna­stefnu á Ís­landi. Þeir boða nú annað setuverkfall heimilislausra karlmanna.

Í síðustu viku fjallaði Frétta­blaðið um mót­mæli sem skipu­lögð voru af fé­lags­mönnum Við­móts, en heimilis­lausir karl­menn í sam­tökunum fóru í setu­verk­fall í neyðar­skýlinu á Granda­garði 1a, sem er úr­ræði fyrir heimilis­lausa karl­menn og rekið af vel­ferðar­sviði Reykja­víkur­borgar. Að sögn mót­mælenda voru mót­mælin tví­þætt. Annars vegar vildu mennirnir að Reykja­víkur­borg taki á­byrgð á því að ekkert úr­ræði sé opið allan daginn fyrir heimilis­lausa karl­menn og hins vegar að þau neyðar­skýli sem séu til staðar loki ekki þegar spáð er gulri við­vörun eða hærra.

Í yfir­lýsingunni segir að Við­mót fagni því að vel­ferðar­svið Reykja­víkur­borgar leggi á­herslu á að finna varan­lega bú­setu­kosti fyrir ein­stak­linga sem glími við heimilis­leysi og nýti sér neyðar­skýlin í Reykja­vík.

„Það leysir þó ekki þann al­var­lega og knýjandi vanda sem við heimilis­lausir karl­menn stöndum frammi fyrir núna! Það er að koma vetur, það er orðið kalt og er stað­reyndin sú að við höfum ekki í nein hús að vernda frá kl 10:00-17:00 þegar neyðar­skýlin eru lokuð,“ segir í yfir­lýsingunni.

Þá boði sam­tökin til annars setu­verk­falls í neyðar­skýlinu á Granda­garði 1a á morgun, 18. októ­ber klukkan tíu, þegar húsinu lokar yfir daginn.

„Við kvíðum mikið vetrinum og því að þurfa að koma okkur á milli staða í köldu og vondu veðri og getum ekki sætt okkur lengur við ó­breytt á­stand,“ segir í yfir­lýsingunni.