Ferðamenn sem koma til Kína frá og með 8. janúar næstkomandi þurfa ekki lengur að fara í sóttkví við komuna. Að sögn þarlendra heilbrigðisyfirvalda þurfa ferðamenn eingöngu að framvísa neikvæðu PCR prófi. Reuters greinir frá.
Tæplega þrjú ár eru liðin síðan kínversk yfirvöld fóru í strangar sóttvarnaraðgerðir, en landið hefur verið meira og minna lokað erlendum ferðamönnum frá árinu 2020.
Þá hefur nær öllum Covid takmörkunum innanlands verið aflétt, sem hefur haft í för með sér gríðarlega aukningu Covid tilfella með tilheyrandi álagi á spítala vítt og breitt um landið, en Kína er meðal síðustu landa heimsins til þess að skilgreina Covid-19 sem landlægan faraldur.