Bocciafélag Akureyrar fékk ekki að keppa í Hængsmótinu í ár þrátt fyrir að vera eina félagið sem stofnað er af fötluðum einstaklingum. Hængsmótið er opið íþróttamót fyrir fatlaða sem Lionsklúbburinn Hængur hefur staðið fyrir síðan 1983. Mótið er haldið árlega á Akureyri. Bocciafélagið stendur í málaferlum við ÍBA eftir að þeim var meinað inngöngu.

Lionsklúbburinn gaf þá skýringu að Bocciafélagið væri ekki hluti af ÍBA og mættu því ekki taka þátt í keppninni. Þrátt fyrir það fékk Bocciafélag Akureyrar að taka þátt í Hængsmótinu árið 2017 og 2018. Hængsmótið er auglýst sem opið mót fyrir fatlaða og þroskaskerta.

„Þetta hefur verið opið mót undanfarin ár og það var mjög erfitt fyrir okkur að fá ekki að vera með þetta árið,“ segir Sigurrós Ósk Karlsdóttir, formaður Bocciafélags Akureyrar, í samtali við Fréttablaðið. Sigurrós segir Bocciafélag Akureyrar vera eina félagið stofnað af fötluðum einstaklingum og telja meðlimir félagsins 60 til 70 manns.

Klofningur í kjölfar nauðgunar

Fréttablaðið greindi frá því í fyrra þegar liðsmenn Akurs gengu úr félaginu til að ganga í Bocciafélag Akureyrar. Ágreiningur kom upp eftir að fyrrverandi formaður Akurs, Vigfús Jóhannesson, steig til hliðar og stofnaði Bocciafélag Akureyrar, en hann var kærður fyrir að hafa ítrekað nauðgað tvítugri þroskaskertri stúlku sem æfði hjá honum boccia. Samkvæmt heimildum blaðsins hafði Vigfús að auki gengið fram með óeðlilegum hætti gagnvart öðrum iðkendum og hefur meint háttsemi hans valdið miklum titringi meðal bocciaiðkenda og fjölskyldna þeirra og hafa iðkendur skipst í fylkingar með og á móti þjálfaranum.

Vigfús er ekki skráður fyrir félaginu en er heimilisfang Bocciafélagsins skráð í sama húsnæði og Plastás ehf, þar sem Vigfús Jóhannesson er framkvæmdastjóri.

Lyklar teknir af keppendum

Fréttablaðinu barst ábending um Boccia-keppnisferð til Reykjavíkur fyrir nokkrum árum sem íþróttafélagið Akur stóð fyrir. Þar kemur fram að fararstjóri Akurs hafi tekið alla hótel lykla af keppendum og fengu þau ekki lyklana aftur fyrr en um kvöldið. Þá búi allir iðkendur í sjálfstæðri búsetu og er hluti keppenda með líkamlega fötlun en ekki þroskahömlun. Að sögn aðstandanda Bocciafélagsins var fyrrverandi þjálfari íþróttafélagsins Akurs drukkinn á æfingum og hafi öskrað oft á keppendur. Jón Heiðar Jónsson, formaður Akurs, segir þær ásakanir vera 7 ára gamlar og sé fyrrnefndi þjálfari ekki lengur að þjálfa.

Var boðið að skrá sig aftur í Akur

„Bocciafélag Akureyrar var stofnað 2017 af fötluðum einstaklingum sem höfðu fengið nóg af framkomu sjórnar, farastjórum, og þjálfara Akurs til margra ára,“ segir í ábendingunni.

Félagið sendi inn umsókn til ÍBÁ árið 2017 en fékk ekki inngöngu og var þeim ráðlagt að skrá sig aftur í íþróttafélagið Akur til að geta keppt. Að sögn aðstandenda Bocciafélagsins vildu þau ekki snúa aftur.

„Þetta árið var þeim svo meinað að keppa á Hæng og það var gert með því að skrá mótið í gegnum ÍF. Formaður Akurs situr í varastjórn ÍF og hefur verið í stjórn félagsins. Galdkeri Akurs er hátt settur innan Lionsklúbbsins Hængs,“ segir í ábendingunni.

Vísað frá lokahófi

Þá voru nokkrir liðsmenn Bocciafélagsins sem vildu taka þátt í lokahófi Hængsmótsins í ár og var þeim vísað frá.

„Framkoma Hængsmanna gagnvart þessum einstaklingum er fyrir neðan allar hellur. Þeim var ekki einu sinni tilkynnt að þau fengju ekki að keppa á Hæng heldur fréttu þau það á Facebook. Tveir iðkendur ætluðu að fara á Lokahófið til að hitta vini og var þeim þá tjáð af dyraverði að BFA væri ekki velkomið á Lokahófið,“ segir í ábendingu sem barst Fréttablaðinu.

Stefna ÍBA

Bocciafélag Akureyrar stendur í málaferlum við ÍBA eftir að þeim var meinað inngöngu. Þetta staðfestir Sigurrós Ósk formaður í samtali við Fréttablaðið.

Fréttin hefur verið uppfærð.