Tón­listar­maðurinn Bob Dy­lan neitar al­farið á­sökunum konu um að hann hafi mis­notað hana þegar hún var 12 ára en konan sem um ræðir, sem er í dag 68 ára og hefur að­eins verið nafn­greind sem JD, lagði fram á­kæru gegn Dy­lan í New York-ríki fyrir helgi.

Í kærunni segir hún Dy­lan hafa nýtt sér stöðu sína til að út­vega henni fíkni­efnum og á­fengi og hafi síðan mis­notað hana kyn­ferðis­lega í­trekað. Að hennar sögn áttu brotin sér stað á þá­verandi heimili Dylans á Chelsea hótelinu í New York. Fer hún fram á réttar­höld með kvið­dómi og bætur.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið segir tals­maður Dy­lan að á­sakanirnar eigi sér enga stoð í raun­veru­leikanum og að þau muni berjast á­kærunni með krafti. Í á­kærunni er Dy­lan sakaður um líkams­á­rás, frelsis­sviptingu, og fyrir að valda sál­rænum skaða.

Mál höfðað gegn Andrési prins með vísan til sömu laga

Þrátt fyrir að 56 ár séu nú liðin frá því að meint brot áttu sér stað gat konan lagt fram á­kæru gegn Dy­lan í New York með vísun til laga í ríkinu um rétt þol­enda til að höfða mál vegna brota sem þau urðu fyrir sem börn, þó þau séu fyrnd.

Fresturinn til að höfða mál út frá lögunum (e. Child Victims Act) rann út síðast­liðinn laugar­dag en ríkis­stjóri New York fram­lengdi frestinn vegna Co­vid til 14. janúar 2021 en síðar var á­kveðið að fram­lengja frestinn um heilt ár, eða til 14. ágúst 2021.

Þúsundir þol­enda hafa þegar nýtt sér lögin til að höfða mál sem annars væru talin fyrnd og má þar til að mynda nefna Virginiu Giuf­fre, sem var fórnar­lamb mansals Jef­frey Ep­stein, en hún greindi fyrr í mánuðinum frá því að hún væri búin að leggja fram kæru á hendur Andrési prins vegna brota sem hún varð fyrir þegar hún var 17 ára.