Vladimir Pútín, forseti Rússlands, bað fólk í dag að styðja við nýtt lagafrumvarp um breytingar á eftirlaunaaldri og varaði við því í ávarpi til þjóðarinnar að ef ekki yrði brugðist við um leið og frumvarpið samþykkt væri hætta á efnahagshruni og óðaverðbólgu og samhliða því aukinni öryggishættu. 

Pútín ávarpaði þjóðina í sjónvarpsviðtali í dag og boðaði þar talsverðar breytingar á frumvarpinu sem hefur verið mjög óvinsælt og mikill fjöldi hefur mótmælt í sumar. Þar fór hann einnig yfir aðgerðir sem hann taldi geta minnkað áhyggjur um að eldra fólk myndi missa ellilífeyri sinn eða vinnu sína.

Aðgerðirnar eru óvinsælar vegna þess að fjölmargir telja að þau muni ekki ná að lifa svo lengi að þau sjái krónu af ellilífeyri sínum. Þó lífslíkur aukist árlega í Rússlandi eru þær lágar, sérstaklega á meðal karlmanna. Að meðaltali eru lífslíkur karlmanna 66 ár í Rússlandi. Í Evrópu eru þær talsvert hærri að meðaltali, eða 79 ár meðal karlmanna. 

Vinsældir Pútíns hafa ekki verið minni í fjögur ár og hafa farið minnkandi síðan tilkynnt var um breytingarnar á ellilífeyrisaldrinum þann 14. júní síðastliðinn sem er sama dag og Heimsmeistarakeppnin í knattspyrnu hófst í Rússlandi.

Í frétt Guardian um málið kemur fram að um 90 prósent Rússa eru á móti því að ellilífeyrisaldurinn sé hækkaður. 

Breytti eftirlaunaaldri kvenna

Eftirlaunaaldur karla verður hækkaðu um fimm ára, eða úr 60 í 65 ára. Pútín tilkynnti þó breytingar á frumvarpinu er varða eftirlaunaaldur kvenna. Í stað þess að verða hækkaður í 63 ár, eins og fyrst var tilkynnt, verður hann hækkaður í 60 ára úr 55 ára. 

„Í okkar landi, er sérstakt, viðkvæmt viðhorf til kvenna,“ sagði Pútín í ávarpi sínu.

Þá tilkynnti hann einnig að í frumvarpinu væri að finna ákvæði sem gerði það ólöglegt að reka fólk sem nálgast ellilífeyrisaldur og að berjast ætti gegn aldursmismunun á vinnustöðum.

Pútín sagði í ræðu sinni að hann hefði alltaf verið á móti breytinum á ellilífeyriskerfinu en að breytingar á lýðfræði krefðust breytinga. Samkvæmt upplýsingum úr hagtölum frá Rússlandi fækkaði Rússum um 164 þúsund á fyrstu sex mánuðum ársins samanborið við 119 þúsund á sama tímabili í fyrra. 

Árið 2044 er búist við því að ellilífeyrisþegar verði jafn margir og fólk sem er á vinnumarkaði sem setur mikinn þrýsting á ríkissjóð Rússa. Pútín sagði því að með breytingunum væri verið að koma í veg fyrir aukningu í fátækt og hrun efnahagsins.