Það eru ekki bandarísku bílafyrirtækin General Motors, Ford eða Fiat Chrysler sem eru stærstu útflytjendur bíla sem framleiddir eru í Bandaríkjunum, heldur er það BMW. BMW framleiðir jepplingana og jeppana X3, X4, X5, X6 og X7 í verksmiðju sinni í Spartanburg í S-Karolínuríki og flutti í fyrra út 234.689 bíla af alls 356.749 slíkum bílum sem þar voru framleiddir í fyrra. Virði þeirra var 8,4 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 1.010 milljarðar króna. 

BMW var líka stærsti útflytjandinn árið áður ef virði þeirra er metið, en er þó ekki sá stærsti ef fjöldi bíla er talinn og á það við um bæði árin. Þar sem þessir bílar BMW eru dýrir lúxusbílar eru þeir almennt dýrari en bílar annarra hefðbundinna bílaframleiðenda. Verksmiðja BMW í Spartanburg er 25 ára gömul og þar vinna 11.000 starfsmenn. Þar stendur til að stækka verksmiðjuna enn meira til að anna mikilli eftirspurn eftir jepplingum og jeppum BMW og er áætluð 600 milljón dollara fjárfesting í verksmiðjunni fram til ársins 2021.