Um nokkurs konar flaggskip BMW mótorhjóla er að ræða enda sækir það margt í hönnun sinni til klassískra BMW hjóla eins og BMW R69S frá sjötta og sjöunda áratugnum. Það sækir líka í smiðju Harley-Davidson með afturenda sem lítur út eins og „Hardtail“ eins og á Softail módelunum. Vélin er risastór, 110 kíló ásamt gírkassa og er 1.802 rúmsentimetrar. Hún skilar 91 hestafli, en það sem um meira er vert 158 Newtonmetra togi.

Mótorinn er engin smásleggja enda viktar hann 110 kíló ásamt gírkassanum.

Þrátt fyrir gamaldags útlit er hjólið fullt af tæknibúnaði eins og tölvubúnaði fyrir mismunandi akstursstillingar, skrikvörn, brekkuaðstoð og rafdrifnum bakkgír. Allur þessi búnaður ásamt stórum mótornum þýðir líka að hjólið er engin léttavara en það viktar 345 kíló án vökva. Hægt verður að breyta hjólinu auðveldlega og strax eru í boði aukahlutir frá merkjum eins og Roland Sands Design, Vance & Hines og Mustang Seats. Einnig er hægt að fá hluti beint frá verksmiðju eins og stærra framdekk, önnur stýri og ýmsar gerðir af töskum. BMW mun selja hjólið sem „First Edition“ til að byrja með og ætti umboðið hérlendis að geta útvegað hjólið, þótt ekki sé kominn verðmiði á það hér ennþá.