Bíllinn byggir á iNext-tilraunabílnum sem frumsýndur var árið 2018 og er iX fyrsti bíll BMW sem byggður er á nýjum skalanlegum undirvagni sem verður undir framtíðarökutækjum BMW. Með fullkomnari hugbúnaði og öflugri tölvubúnaði getur bíllinn nýtt sér 5G-tæknina til að keyra sjálfur og leggja sjálfur í stæði. Bíllinn verður með fimmtu kynslóð eDrive-rafmótora en þeir eru minni um sig en skila um leið meira afli en áður. Rafhlaðan verður 100 kWst og skilar orku til tveggja rafmótora sitt á hvorum öxlinum. Hestaflatalan verður 500 og upptakið í 100 km hraða undir fimm sekúndum. Það sem mestu máli skiptir er að nýja rafhlaðan verður með 605 km drægi sem er talsvert meira en er í boði í BMWraf bílum í dag. BMW segir einnig að hægt sé að hlaða rafhlöðuna með 200 kW hleðslu sem þýðir að hægt er að hlaða hana upp í 80% á undir 40 mínútum. Í 11 kW heimahleðslustöð er hægt að fullhlaða bílinn á 11 klst. Undirvagninn nýi verður með álgrind og umlukinn koltrefjum.

Að sögn BMW er tölvukerfi bílsins 20 sinnum öflugra en sést hefur áður í framleiðslubílum. BMW hefur ekki gefið upp neinar stærðartölur um bílinn aðra en þær að hjólhafið verður þrír metrar sem verður að teljast allgott. Bíllinn verður þó svipaður BMW X5 að stærð. Hið þekkta nýrnagrill verður áberandi að framanverðu þótt það sé nánast lokað eins og búast má við af rafbíl. Þar verður myndavél, ásamt radar- og lidar-skynjurum komið fyrir. Díóðuljósin eru þynnri en við höfum séð áður í ökutækjum BMW og hurðarhúnar sem koma út úr yfirbyggingunni er eitthvað sem við höfum ekki séð áður. Að innan verður flatt gólf sem eykur plássið fyrir alla fimm farþegana. Tveir stórir skjáir verða áberandi í mælaborðinu en þeir eru bogadregnir. Annar er 15 tommur að stærð meðan hinn er 12,3 tommur. Annað eins og miðstöðvartúður og hátalarar er meira falið í innréttingunni.

Þótt afturendinn sé hefðbundnari setur hann nýjar línur með ílöngum afturljósum.