„Þetta geta verið vísbendingar um að frekari rannsókna sé þörf,“ segir Líf Magneudóttir, borgarfulltrúi Vinstri grænna og formaður Umhverfis- og heilbrigðisráðs Reykjavíkur, um niðurstöður rannsókna Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur (HER) á blýmengun og hljóðmengun frá skotæfingasvæðum á Álfsnesi.

„Niðurstöður greiningar benda til þess að hlutfall blýhagla sé hærra en búist var við út frá upplýsingum sem HER hefur haft fram að þessu. Telur HER að verði blýhögl notuð á svæðinu í sama hlutfalli og niðurstöður sýna geti það valdið jarðvegsmengun,“ segir í skýrslu heilbrigðiseftirlitsins sem Fréttablaðið hefur undir höndum.

Rannsóknin var gerð í september í fyrra. Markaðir voru 23 sýnatökureitir neðan við skotsvæði Skotveiðifélags Reykjavíkur (Skotreyn) annars vegar og neðan við svæði Skotfélags Reykjavíkur (SR) þar skammt undan hins vegar.

Aðeins voru talin högl á yfirborði og hluti þeirra efnagreindur hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands sem fékk þá niðurstöðu að hlutfall blýhagla væri um 47 prósent. Fjöldi hagla á fermetra neðan við svæði Skotreynar var 1.533 og 589 hjá SR.

Þessi útkoma er algerlega á skjön við það sem gefið hefur verið upp af hálfu skotæfingasvæðanna.

Frá Álfsnesi

Í svörum frá Skotveiðifélagi Reykjavíkur frá árinu 2014 til heilbrigðiseftirlitsins var því svarað til að blýskot væru alger undantekning. „Það er mitt mat að í mesta lagi 0,1 prósent af skotum sem notuð eru á svæðinu séu blýskot,“ sagði Egill Másson, þáverandi formaður Skotfélagsins í svarinu.

Guðmundur Kr. Kristjánsson, þáverandi framkvæmdastjóri Skotfélags Reykjavíkur, tók þá í svipaðan streng í sínu svari. „Það er nánast ekkert undanfarin ár,“ svaraði hann um notkun blýskota.

Í tölvupósti til íbúa á svæðinu í janúar 2019 sagði Árný Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Reykjavíkur, að farið hefði verið í eftirlit á skotsvæðin á árinu 2017. „Í því eftirliti, á báða staðina, kom í ljós að til undantekninga heyrir að blýskot séu notuð og að skot lendi utan svæða skotfélaganna,“ sagði hún.

Einnig voru gerðar mælingar á hljóðstyrk frá skothvellunum.

„Þar sem mældur hljóðstyrkur fór yfir viðmiðunargildi fyrir hávaða fyrir tímabilið frá klukkan 19 til 23 telur HER rétt að stytta opnunartíma að kvöldi, það er milli klukkan 19 til 23 til að takmarka ónæði vegna skothljóða,“ segir meðal annars um niðurstöður mælinganna.

Líf Magneudóttir

Líf Magneudóttir segir skipulagsyfirvöld í borginni vera að skoða málefni skotfélaganna.

„Skipulagið hefur verið að leita að annarri staðsetningu sem fellur betur að þessari íþróttaiðkun,“ segir borgarfulltrúinn. Það hafi verið að ósk umhverfis- og heilbrigðisráðs sem heilbrigðiseftirlitið fór í þessa rannsókn. Sjálf hafi hún aðeins séð drög að skýrslunni sem hafi ekki verið lögð formlega fram. Því vilji hún ekki tjá sig frekar um niðurstöðurnar í bili. Þær verði hugsanlega ræddar í ráðinu í næstu viku.

Skýrslan er nýjasta innleggið í deilu sem staðið hefur allt frá því að veitt var leyfi fyrir skotsvæðunum á Álfsnesi fyrir um hálfum öðrum áratug. Bæði íbúaráðið og einstaka íbúar í nágrenninu hafa kvartað undan ónæði og mögulegri blýmengun fyrir lífríkið.

„Þessi tvö ólöglegu skotsvæði hafa haft gríðarlega neikvæð áhrif á líf margra fjölskyldna og einstaklinga,“ sagði í bréfi með undirskriftalista íbúa frá árinu 2019 til borgarráðs þar sem þess var krafist að skotsvæðið yrði strax fjarlægt.