Birkir Einars­son, einn eig­enda línu­bátsins Blossa ÍS 225 sem sökk í höfninni á Flat­eyri í gær, segist enn vera að með­taka at­burði gær­kvöldsins. Báturinn er í eigu fjöl­skyldu­fyrir­tækis hans og eigin­konu hans á­samt föður hans og móður.

Eins og áður hefur komið fram sukku sex bátar í höfninni á Flat­eyri vegna snjóð­flóðsins. Í sam­tali við Frétta­blaðið segir Birkir að erfitt sé að sjá annað en að báturinn sé ó­nýtur. Báturinn er einungis um sex ára gamall en hann var smíðaður árið 2014. Birkir segir málið á­fall og margt enn ó­ljóst þegar svo stutt er frá at­burðunum.

„Hann er bara alveg ó­nýtur, eða ég geri alla­vega ráð fyrir því,“ segir Birkir. Hann fór með Þór í dag til að komast á Flat­eyri. „Mig dreymdi þetta í haust. Mig dreymdi að það hefði komið snjó­fljóð inn í höfnina og dreymdi að það hefði raskað lífum fólks,“ segir Birkir.

Hann segir að skip­verjar hafi fengið SMS frá við­vörunar­kerfi bátsins. „Ef það kemur eldur eða sjór í vélar­rúmið þá sendir það sms á okkur og við fengum sms frá bátnum eina mínútu yfir ellefu og þá fáum við sms frá honum að það sé eldur í vél, eldur í brú og að það sé eitt­hvað í gangi,“ segir Birkir.

„Þá hringdi ég í björgunar­sveitina og bað hana um að fara að kíkja á þetta og þá sáu þeir að allir bátarnir voru bara farnir. Búið að þurrka flotann út bara,“ segir Birkir. Hann segir fram­haldið mjög ó­ljóst, rykið sé enn að setjast.

„Við þurfum að taka okkur tíma og sjá hvernig þetta verður. Setjast niður með starfs­fólkinu okkar og sjá hvernig þetta fer. Maður verður bara að taka því ró­lega og anda að­eins með nefinu,hann fer ekki neitt í milli­tíðinni.“

Þá segir Birkir að móðir sín hafi gagn­rýnt hvernig snjó­flóða­garðarnir enda við bæjar­mörkin. „Af því að hann vísar bara beint niður á bryggju en þá var bara gert grín að henni, en nú höfum við fengið stað­festingu á því,“ segir hann. Hann segir flóðin nú hafa rifið upp gamlar minningar frá flóðunum 1995.

„Þetta rifjar upp gamlar minningar. Maður var hérna þá, á­tján ára gamall að leita. En maður verður bara að taka þessu með heilum hug, rök­hugsuninni og sjá hver næstu skref verða. Það er allt í upp­lausn núna bara.“