Björn Gunn­laugs­son, kennari, furðar sig á því að hann hafi síðasta sunnu­dag séð í gámi nærri verslun Bónus á Akranesi, sem merktur var al­mennu heimilissorpi, mikið magn matar og um­búða sem al­menningi er sagt að hreinsa og endur­vinna og hann veltir því fram á Twitter, þar sem hann birti myndina, hvers vegna það sama gildi ekki um verslunina.

„Ég var á Akra­nesi síðast­liðinn sunnu­dag og átti leið í Bónus. Ég keypti mér sam­loku og borðaði hana á leið út úr búðinni. Ég leit í kringum mig eftir rusla­fötu og þarna gám merktan Al­mennt heimilissorp. Ég opnaði gáminn og sá þá þetta hrika­lega magn af rjóma­fernum og skyrdollum,“ segir Björn Gunn­laugs­son í sam­tali við Frétta­blaðið. „Mér blöskraði þetta því allt sem að var í gámnum eru um­búðir sem okkur al­menningi er sagt að endur­vinna.“

Hann segir að Bónus á Akra­nes flokki þó suma hluti. „Ég sá starfs­mann koma út á bak­við með fullt af pappa­kössum sem hann setti í þar til gerðan pappa­gám.“

Almennt sé ruslið flokkað

Guð­mundur Marteins­son, fram­kvæmda­stjóri Bónus, segir í sam­tali við Frétta­blaðið að fyrir­tækið sé stans­laust að reyna að bæta og gera betur þegar kemur að um­hverfis­vernd. Þau séu þó ekki full­komin. Hann segir að hann þekki ekki einstaka tilfelli, en segir að almennt eigi að hreinsa umbúðir og flokka rusl.

„Al­mennt er þetta flokkað frá. Ég þekki ekki þetta ein­staka til­felli,“ segir Guð­mundur.

Hann segir að þeir aðilar sem að taki frá Bónus sorpið sendi þeim skýrslu hver mánaðar­mót um hvernig sorpið frá þeim flokkist, það er hvort það er pappír, úr­gangur til urðunar og hvað sé líf­rænn úr­gangur til moltu­gerðar.

Matvaran sem var hent í gáminn var að miklu leyti útrunninn og segir Guðmundur að þeirra besta staða sé að umbúðir þess sem er útrunnið væri flokkað. Hann segir að þau reyni ávallt að gera betur en áður.

„Það er okkur metnaðar­mál að gera betur en síðast og þess vegna er þetta þannig að aðilinn sendir okkur skýrslu um hvernig sorpið flokkast eftir hverri búð. Við erum með 31 búð og því miður eru þær ekki allar jafn góðar, en við stefnum á það þær verði allar jafn góðar,“ segir Guð­mundur.

Rýrnun hvers dags flokkuð við lok dagsins

Hann segir að á hverjum degi, við lok dags, er rýrnun dagsins safnað saman á lager og að starfs­menn sjái um að flokka og henda.

„Við erum að vinna í því að bæta okkur í um­gengni. Við erum ekkert að segja að við séum full­komin. Það er langur vegur í það. Mark­mið okkar er að gera betur en við gerðum í fyrra og það er það sem við erum að gera,“ segir Guð­mundur að lokum.

Á heima­síðu fyrir­tækisins má sjá að á síðasta ári (2018) flokkaðist sorp fyrir­tækisins þannig að 64,7 prósent fór sem bylgju­pappi til endur­vinnslu, úr­gangur til urðunar var 30,5 prósent og líf­rænn úr­gangur til moltu­gerðar 2,6 prósent. Hlut­fall þess sem var endur­unnið var 9,4 prósentum meira en árið áður og fór 4,1 prósent minna sorp til urðunar en árið áður. Þá fór 1.955 tonn af bylgju­pappa í endur­vinnslu frá Bónus 2018.