Nokkur skortur hefur verið á blómkáli í búðum landsins síðustu vikuna. Eftirspurnin eftir blómkáli hefur aukist mikið síðustu mánuði en hana má rekja til aukins áhuga landsmanna á hollum lífsstíl og góða veðursins sem hefur verið á Suðurlandi í sumar. Markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna segir moldarrok síðustu helgi hafa skemmt hluta uppskerunnar en vonast til að ástandið verði komið í eðlilegt horf í næstu viku.

„Það er alveg að koma inn blómkál til okkar en það er bara kannski ekki alveg í því magni sem við hefðum viljað,“ segir Kristín Linda Sveinsdóttir, markaðsstjóri Sölufélags garðyrkjumanna, í samtali við Fréttablaðið. „Það var svo mikið moldarrok síðustu helgi sem að fór mjög illa með það blómkál sem var búið að opna sig og átti eftir að þroskast meira.“

„Þetta er eitthvað sem að getur komið fyrir og þá kemur smá lægð í innsetningu á grænmetinu,“ heldur hún áfram. „Þetta er nú ekki þannig að fólk finni hvergi blómkál. Það er á markaðinum en ekki í því magni sem það ætti að vera í.“ Salan á blómkáli hefur verið mjög góð undanfarnar vikur. Og raunar á öllu fersku grænmeti ef út í það er farið.

„Það er gríðarleg eftirspurn eftir blómkáli. Það kemur bara af tilstuðlan bæði ketófæðis og almenns áhuga á breyttum lífsstíl hjá mörgum markhópum,“ útskýrir Kristín. Áhuginn á fjölbreyttri fæðu hafi aukist og blómkál megi nú finna í flestum uppskriftum að hollum réttum. Veðurfarið spilar þá líka inn í söluna að hennar sögn. „Veðurfar og sala á fersku grænmeti haldast mikið í hendur. Við finnum fyrir því þegar það viðrar vel og veðrið hefur verið mjög gott núna á Suðurlandi þar sem stærsti markaðurinn er.“

Hún segir blómkálsræktun þá afar erfiða því blómkálið sé mjög viðkvæmt grænmeti. „Núna eru líka örlítið færri bændur í sölufélaginu sem eru að senda inn blómkál heldur en almennt en vonandi fer þetta að aukast aftur,“ segir hún. Garðarnir ættu að jafna sig eftir moldarrokið fljótlega og nú ætti að byrja að rigna dálítið sem er gott fyrir ræktunina. „Við vonumst til að þetta lagist í næstu viku. Ég get náttúrulega ekkert lofað neinu en þetta ætti að fara að taka við sér,“ segir Kristín að lokum.