Karl Fannar sem á að baki menntun í húsgagnasmíði, mannfræði, hnattrænum fræðum og opinberri stjórnsýslu, hefur lengi haft mikinn áhuga á byggingarlist, mismunandi byggingarstílum og öðru sem snertir borgarlandslag.

„Það má í raun segja að áhugi minn á félagslegum þáttum og byggingarlist hafi sameinast í eitt þegar ég stofnaði Instagram-síðuna Blokkir eru bestar.“

Á umræddri Instagram-síðu birtir Karl reglulega myndir af blokkum borgarinnar, en landsbyggðin er þó ekki alveg undanskilin. Myndbirtingarnar skapa svo líflegar umræður fylgjenda síðunnar.


„Mér finnst dásamlegt hvernig fólk, eins mismunandi og það er, kemur saman undir einu þaki til að lifa sínu lífi. Við mannfólkið erum félagsverur og okkur líður vel í kringum annað fólk. Mannfólk hefur í gegnum tíðina oft búið þröngt, stundum kannski full þröngt,“ segir Karl.

„Mér finnst dásamlegt hvernig fólk, eins mismunandi og það er, kemur saman undir einu þaki til að lifa sínu lífi."

„Hér heima á Íslandi má glögglega sjá þetta á langhúsunum sem fyrstu íbúar þessa lands bjuggu í, svo varð ákveðin þéttbýlismyndun, sem reyndar varð bakslag á um tíma, en að lokum er staðan sú að yfir 90 prósent landsmanna búa í þéttbýli.“

Karl bendir á að vissulega sé Ísland dálítið öfgafullt dæmi, en þróunin sé þessi um allan heim, sérstaklega í velmegunarsamfélögum.

Fyrstu blokkir landsins


„Fyrstu blokkir landsins eru blokkirnar tvær við Hringbraut 37-47. Vissulega bjó margt fólk undir sama þaki fyrir þann tíma, en þegar Hringbraut 37-47 voru reistar var að hefjast mesta velmegunartímabil í sögu þessa lands.

Bygging blokka þar sem fólki af lægri stéttum var boðið upp á heilsusamlegt og mannsæmandi húsnæði var því hluti af þeim uppgangi og velmegun sem átti eftir að einkenna íslenskt samfélag á eftirstríðsárunum,“ segir hann.

Þegar Karl var í fyrrasumar á ferðalagi um landið ásamt fjölskyldu sinni segist hann hafa orðið uppnuminn af því að sjá blokkir í mörgum sjávarþorpum.

„Ég myndaði sumar af þessum blokkum og að lokum var ég kominn með dágott myndasafn.“
Hann mundi þá eftir Instagram- síðu um arkitektinn Sigvalda Thord­arson sem listamaðurinn Logi Höskuldsson eða Loji heldur úti.

„Ég vissi þá að hugmynd mín um að stofna Instagram-síðu um blokkir væri kannski ekki eins galin og hún kann að hljóma. Svo fór að ég stofnaði síðuna og hef bara haft virkilega gaman af þessu. Fólk virðist hafa tekið vel í þetta, það eru allavega töluvert fleiri að fylgja síðunni en ég hefði getað gert mér vonir um.“


Hóla-blokkirnar heilagar


Sjálfur býr Karl í fjölbýlishúsi sem er kjallari, tvær hæðir og ris.

„Einhverjir myndu kalla þetta blokk, en persónulega finnst mér að blokk þurfi að vera allavega þrjár fullar hæðir plús annað. Okkur konuna greinir á um þetta, eflaust er hún að reyna að sannfæra mig um að við búum í blokk til að láta mér líða betur,“ segir hann í léttum tón.

Karl hefur þó búið í blokk, Kríuhólum 2.

„Það er blokk sem er hluti af einni af flottustu blokkasamstæðu Íslands, og þó víðar væri leitað. Ég vil ganga svo langt að kalla „Hóla-blokkirnar" Acropolis Íslands. Einhvers konar heilagt blokkahof, stað til að koma á og njóta góðra stunda í faðmi blokka sem mynda skjól og athvarf fyrir blokkaunnendur og hverja þá sem vilja njóta framúrskarandi borgarumhverfis.“

„Ég vil ganga svo langt að kalla „Hóla-blokkirnar" Acropolis Íslands."

Aðspurður segir Karl það ekki vera spurningu að blokkir séu ákjósanlegasta búsetuformið.

„Áhersla dagsins í dag er að ­þétt­a byggð. Upp­lif­un mín er að mín kyn­slóð vilji til að mynda minna hús­næði, kjósi frek­ar minima­lísk­an lífs­stíl og aukið frelsi til að leika sér. Þá koma blokkir og fjölbýli sér sérlega vel.

Slíkt hef­ur einnig mik­inn sparnað í för með sér hvað varðar alla innviði, eins og sam­göngu­kerfi og lagn­ingu raf- og vatns­lagna. Svo er sú orka sem margmenni býr yfir mögnuð, þar sem sköpunarkrafturinn er beislaður.


Sjarmerandi blokkir


En ætli það séu til ljótar blokkir í huga blokkaunnandans?

„Já, það eru til ljótar blokkir, eða við skulum segja að sumar blokkir sé fallegri en aðrar. Að öllu gríni slepptu, jú vissulega eru blokkir þarna inni á milli sem mörgu fólki finnst ljótar. Ég reyni þó ávallt að skoða blokkir út frá þeim tíðaranda sem þær spretta upp úr, hvaða stefna var ríkjandi í arkitektúr þegar þær voru byggðar og þar fram eftir götunum. Það hjálpar við að kunna að meta þær, og það er ótrúlegt hvað það getur breytt sýn manns á viðfangsefnið.“

„Ég reyni þó ávallt að skoða blokkir út frá þeim tíðaranda sem þær spretta upp úr, hvaða stefna var ríkjandi í arkitektúr þegar þær voru byggðar og þar fram eftir götunum."

Hvað gerir góða blokk að góðri blokk?


„Fólkið sem í henni býr og/eða eigendur blokkarinnar! Blokk sem er illa hirt verður aldrei góð blokk, þó hún sé kannski sjarmerandi. Í þessu samhengi má til að mynda nefna blokkina við Auðbrekku, hún er ekki falleg en sjarmerandi engu að síður.“


Áttu þér uppáhaldslandsbyggðarblokk?


„Ég á mína uppáhalds í hverjum landshluta. Ísafjörður gersamlega á vestrið með fullt af frambærilegum blokkum, eins og að Fjarðarstræti 2-6. Þarna ertu með brútalisma nánast á heimskautsbaug, bara það eitt og sér er klikkað. Einnig er vert að nefna tvennuna við Múlaland. Tvær blokkir sitja tignarlega í hlíðinni og vaka yfir bænum.

Akureyri er frábær staður fyrir þá sem fíla póst-módernískan arkitektúr. Á síðustu árum hefur þessi einkennisstíll tíunda áratugarins verið að fá uppreist æru, það er komin ákveðin fjarlægð á stefnuna tímalega séð og margt frábært sem hún hefur skilið eftir sig. Hér má nefna blokkirnar við Múlasíðu og einnig Lindasíðu 2-4.


Á Austurlandi er blokkin við Bleiksárhlíð 56 á Eskifirði í sérstöku uppáhaldi. Þessi blokk var ein af þeim sem urðu á vegi mínum þegar við vorum að ferðast um landið í fyrra og á stóran þátt í að þessi síða varð til.“ n

Fimm flottustu blokkirnar

Það var ekki annað hægt en að fá blokkaraðdáandann mikla til að nefna topp fimm blokkir landsins að hans mat. Hann sagðist sveiflast svolítið til og frá en eins og er væru þessar fimm í sérlegu uppáhaldi.

Við Hringbraut standa fyrstu blokkir Íslands sem eru auðvitað í uppáhaldi hjá Karli. Fréttablaðið/Ernir

Hringbraut 37-47, Fyrstu blokkir Íslands, ekki spurning.

Fannborg 1 í Kópavogi er alger negla frá áttunda áratugnum að mati Karls. Fréttablaðið/Ernir

Fannborg 1. Brútalismi par excellence. Alger negla frá áttunda áratugnum þegar mikil steypa var allt sem þurfti.

Háaleitisbraut 109 til 111, sem teiknuð var af Sigvalda Thordarsyni, er í sérlegu uppáhaldi hjá Karli. Fréttablaðið/Ernir

Háaleitisbraut 109-111, Sigvaldi Thordarson var frumkvöðull í innleiðingu á módernískum byggingum á Íslandi og gulu og bláu litirnir hans lifga upp á gráann hversdagsleikann.

Við Dunhaga stendur þessi klassíska blokk frá sjötta áratugnum. Fréttablaðið/Ernir

Dunhagi 11-17, klassísk blokk frá sjötta áratugnum. ákveðin sjarmi yfir henni sem ég kann vel við.

Langahlíð 19 til 25 var stærsta blokk landsins þegar hún var byggð. Fréttablaðið/Ernir

Langahlíð 19-25, Blokkin sem kemur með modernisman til landsins. Stærsta blokk landsins þegar hún er byggð. Alger klassi.

Blokkaáhugafólk getur hér skoðað instagram síðu Karls: https://www.instagram.com/blokkir_eru_bestar/